Fréttir eftir árum


Fréttir

Talað við tölvur á íslensku með nýjum talgreini

27.4.2018

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var fyrsti notandi nýrrar vefgáttar fyrir talgreini á íslensku. Talgreinirnn snýr íslensku talmáli yfir í ritmál. Kynningarfundur um máltækni og opnun vefgáttarinnar var haldinn í Háskólanum í Reykjavík í dag en að fundinum stóðu Háskólinn í Reykjavík, Almannarómur - félag um máltækni og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Talgreinirinn er opinn almenningi á vefsíðunni tal.ru.is.

Mörg fræðasvið mætast

Áður en ráðherra opnaði nýja vefgátt fyrir talgreini útskýrði Jón Guðnason, dósent við tækni- og verkfræðideild HR og forstöðumaður Gervigreindarseturs HR, tilurð þessarar nýju tækni.

Maður og kona standa hlið við hlið á ganginum í HRJón Guðnason og Lilja Alfreðsdóttir að fundinum loknum.

„Við þurfum að skilja hvernig röddin verður til, hvernig hljóðið ferðast og hvernig upptökutæki virka. Þetta geta raunvísindin aðstoðað okkur með. Svo nýtum við niðurstöður rannsókna í félagsfræði þar sem við þurfum að skilja mannleg samskipti. Málvísindi eru gríðarlega mikilvæg, eins og gefur að skilja, og undirgreinar þar eins og merkjafræði og hljóðfræði. Allt er þetta svo bundið saman með stærðfræði og líkindafræði. Við gerum algrím, nýtum okkur gagnaskipan og vélrænt nám þar sem hægt er að taka gríðarstórt magn af gögnum og læra byggingu tungumáls.“

Hann sagði að til þess að talgreinir fyrir íslensku hafi orðið að veruleika hafi þurft gríðarlegt magn hljóðupptaka og íslenska málheild sem unnin var innan Stofnunar Árna Magnússonar. Steinþór Steingrímsson, verkefnastjóri í máltækni við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum lýsti síðar á fundinum í sínu erindi notkunarmöguleikum og tilurð nýrrar risamálheildar, sem er mjög mikilvæg grunnur fyrir alla máltækni, t.d. við gerð talgreina.

Maður heldur fyrirlesturSteinþór Steingrímsson, verkefnastjóri hjá Árnastofnun.

Verkefnið hófst innan Háskólans í Reykjavík með því að Jón og samstarfsfólk hans fékk nemendur til að vinna að gerð lítils talgreinis fyrir nokkrum árum síðan. Nú er virkt samstarf um notkun og þróun talgreinis við meðal annars Google, Alþingi, Tern systems, ISAVIA og verið er að skoða verkefni fyrir RÚV um að raddstýra efnisveitu.

Hlutverk okkar allra

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, vitnaði í Þórarinn Eldjárn í upphafi erindis síns og sagði að á íslensku mætti alltaf finna svar. Hún sagði þetta verkefni vera gríðarlega mikilvægt þar sem við ættum núna meiri möguleika á því að nota tungumálið okkar í þeirri stafrænu byltingu sem er framundan.

„Þetta verkefni og aðgerðaráætlun í máltækni er stór þáttur í að snúa vörn í sókn. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hvað allir sem koma að þessu eru stórhuga en það er einmitt það sem við þurfum á að halda núna. Hlutverk okkar allra er að hlúa að tungunni og við verðum að nýta kraftinn og hugvitið sem vísindamenn okkar hafa. Það er ekki hægt að fara í þessi stóru máltækniverkefni nema það sé gott samstarf milli stjórnvalda, grunnskóla, háskóla og atvinnulífs og þessi fundur hér í dag fyllir mig bjartsýni.“

Lilja sagðist verða vör við mikla vitundarvakningu hér á landi hvað varðar framtíð íslenskunnar en að notkun tungumálsins í stafrænum heimi sé alls ekki vandamál sem aðeins við Íslendingar glímum við. „Þetta er stórt viðfangsefni allra Norðurlandanna, að mæta stafrænni byltingu og gríðarlega mikilli enskunotkun.“ Hún sagði mikilvægt að fylgja þessu verkefni eftir. „Framundan eru krefjandi verkefni sem kveðið er á um í Máltækniáætlun fyrir íslensku þar sem frekari þróun og rannsóknir munu líta dagsins ljós en sú áætlun hefur verið fjármögnuð. Þar má nefna samning til fimm ára um meistaranám í máltækni innan HR og HÍ.“

Á fundinum fjallaði Inga Rún Helgadóttir, sérfræðingur við Mál- og raddtæknistofu HR, einnig um talgreiningu á Alþingi. Fundarstjóri var Björgvin Ingi Ólafsson.

Frekari upplýsingar

Fólk situr í fyrirlestrasal og hlustar