Fréttir eftir árum


Fréttir

Telja áhrifin á námið meiri og langvinnari en áður

2.11.2020

Mun fleiri nemendur telja nú að ástandið vegna Covid muni hafa mikil áhrif á nám þeirra en áður. Samkvæmt nýlegri könnun meðal nemenda í HR telja nú um 64% nemenda að núverandi ástand muni hafa frekar eða mjög mikil áhrif á nám þeirra, á heildina litið, samanborið við 37% nemenda í mars. Um 16% nemenda telja nú að ástandið muni hafa lítil áhrif á nám þeirra samanborið við 35% í mars.

Síðan í upphafi Covid faraldursins hefur Háskólinn í Reykjavík reglulega gert kannanir meðal nemenda til að fylgjast með líðan þeirra, hvernig heimanám gangi og fleiri atriðum. Niðurstöður slíkra kannana hafa meðal annars verið nýttar við skipulagningu á viðbrögðum háskólans við faraldrinum og því álagi sem hann hefur skapað nemendum.

Í síðustu könnun, sem gerð var 20. til 26. október, sögðust 49% nemenda líða frekar eða mjög illa. Þegar fyrsta bylgja faraldursins var í gangi í lok mars sögðu um 30% nemenda að þeim liði illa og í könnunum sem gerðar voru í maí og ágúst var þetta hlutfall um 20%. Um 11% nemenda segjast nú líða mjög illa, miðað við 5% í mars. Andleg líðan nemenda við HR hefur hefur því greinilega versnað frá því í sumar. Um 24% nemenda segjast nú líða mjög eða frekar vel og 27% hvorki vel né illa.

Þegar spurt var að því hvernig heimanám gangi svöruðu 36% að það gangi vel eða frekar vel, 24% hvorki né og 40% mjög eða frekar illa. Það eru heldur jákvæðari niðurstöður en í mars þegar 32% nemenda sögðu að heimanám gengi vel.

1183 nemendur svöruðu könnuninni og svarhlutfall var 23%.