Fréttir eftir árum


Fréttir

Tengslanet ungs fólks um orkumál stofnað

28.10.2014

Nokkrir nemendur við Iceland School of Energy við HR standa þessa dagana í stórræðum. Þau eru að koma á fót The Future Arctic Energy network (FAE) sem er tengslanet ungs háskólafólks og fagfólks sem lætur sig orkumál á norðurslóðum varða. Tengslanetið verður stofnað á fundi sem haldinn er næstkomandi fimmtudag á vegum Iceland School of Energy við HR og ber heitið Tækifæri til framtíðar á sviði orkumála.

Future Arctic Energy Network

Sarah Sternbergh, Mike Doheny, Sven Scholtysik og Almar Barja.

„Tengslanetið er skipulagt af fjórum nemendum við Iceland School of Energy við HR, sem öll hafa þverfaglegan bakgrunn og með ódrepandi áhuga á málefnum norðurslóða. Framtíðarsýn okkar er að nálgast þau vandamál sem blasa við norðurslóðum frá tæknilegu sjónarhorni og fá með í baráttuna nemendur, ungt fagfólk, fulltrúa iðnaðar og virta fræðimenn til að ná markmiðum okkar,“ segir Almar Barja, nemandi við ISE og einn stofnenda FAE-tengslanetsins.

Tilgangur með netinu er að skapa tækifæri fyrir háskólanema og ungt fagfólk til að vera þátttakendur í umræðu um orkumál á Norðurslóðum. FAE stefnir að því að vekja áhuga á og hvetja til þátttöku ungs fólks í rannsóknum á sviði orku og Norðurslóðamála, og efla nýsköpun á þessu sviði til framtíðar.

Markmið

  • Búa til vettvang þar sem háskólanemar geta birt greinar.
  • Standa að vinnustofum og samstarfsverkefnum sem koma ungu fólki á framfæri.
  • Styrkja rannsóknir og starfsþróun ungs fólks með samstarfi við leiðbeinendur.
  • Hvetja ungt fólk til rannsókna og starfa á sviðinu með styrk til náms við Íslenska orkuskólann í HR (Iceland School of Energy).
  • Starfa með svipuðum tengslanetum, stofnunum og samtökum um allan heim varðandi málefni norðurslóða og endurnýjanlegrar orku til að finna megi sjálfbærar og umhverfisvænar lausnir.

Vefur Iceland School of Energy