Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

„Þarna vorum við frá HR að keppa við stærstu skóla í heimi“

14.3.2020

Lið Háskólans í Reykjavík stóð sig með miklum ágætum í harðri alþjóðlegri fjárfestingakeppni, Rotman International Trading Competition, sem var haldin nýlega í Toronto, Kanada. Í einni þrautinni af sex sigraði lið HR en það eitt og sér verður að teljast frábær árangur, enda taka allir helstu viðskiptaháskólar heims þátt. 

Hópur nemenda HR horfir í myndavélina

Lið HR, frá vinstri: Pétur Sævar Sigurðarson, Alexander Giess, Stella Dögg Blöndal, Hörður Guðmundsson og Davíð Einarsson.

Lið frá rúmlega 50 alþjóðlegum háskólum taka þátt á hverju ári og leysa sex verkefni tengd fjármálum og eignastýringu. Þetta er í þriðja skipti sem HR sendir lið í keppnina sem er sú stærsta sinnar tegundar. Yfir það heila lenti HR í 25. sæti af 48. 

Einstök reynsla

„Það gekk bara nokkuð vel, segir Stella Dögg Blöndal, nemandi í rekstrarverkfræði og einn liðsmanna. „Við vorum í 12. sæti eftir fyrsta keppnisdaginn en svo gerðum við mistök á öðrum degi sem kostaði okkur mikið.“ Liðin búa til líkön til að taka ákvarðanir í raundæmum fyrir fjárfestingar en dæmin hafa liðin fengið send 20 dögum fyrr. 

Hópur karla situr við tölvur

Davíð Einarsson, nemi í viðskiptafræði, segir dæmin hafa snúist um flestar hliðar fjárfestinga. „Allt frá því að vera í pyttinum á Wall Street og kaupa hlutabréf og réttinn til að kaupa hlutabréf í hermilíkani - en í það heila snýst þetta um að sjá tækifæri á markaði og taka góðar ákvarðanir. Hann segir reynsluna hafa verið einstaka. 

„Þetta var rosalega gaman! Þarna vorum við frá HR var að keppa við stærstu skóla í heimi!“ „Já, þetta opnaði nýjan heim fyrir mér og ég lærði rosalega mikið á þessu,“ segir Stella. 

Keppendur fyrir hönd HR fyrir utan Davíð og Stellu Dögg voru þeir Hörður Guðmundsson, Pétur Sævar Sigurðarson og Alexander Giess. Þau eru nemendur í verkfræði, viðskiptafræði og hagfræði.

 


Valáfangi í HR

Til að eiga færi á að taka þátt skrá nemendur við HR sig í valáfanga á haustönn sem snýst um undirbúning fyrir keppnina sjálfa. Það er markmið viðskiptadeildar að bæta árangurinn enn frekar enda verður til dýrmæt reynsla í hvert skipti sem HR sendir lið. 

Í ár lenti HR rétt á eftir háskólum eins og Stanford og hafði betur en lið frá Berkeley, UCLA, MIT, University of Edinburgh og Duke en þess má geta að flest liðanna hafa tekið þátt í fjölda ára og verja miklum tíma og mannskap í undirbúning. Framtíðin er því björt fyrir gengi Háskólans í Reykjavík í þessari stóru alþjóðlegu keppni.