Fréttir eftir árum


Fréttir

Þrívíddarprentun af hjarta bjargaði lífi mannsins

4.10.2019

Þrívíddarprentað líkan af hjarta manns sem hlotið hafði alvarlegan hjartaskaða, bjargaði lífi hans. Háskólinn í Reykjavík og Landspítalinn hafa um árabil unnið náið saman við þróun á þrívíddarprentun líffæra sem notuð eru við undirbúning skurðaðgerða.

https://www.youtube.com/watch?v=Y_M1JklWk64

Hér má sjá viðtal við Paolo Gargiulo, dósent í heilbrigðisverkfræði við verkfræðideild og Bjarni Torfason, yfirlæknir við hjartaskurðdeild Landspítalans, þar sem þeir lýsa atviki þar sem tilurð líkans af hjarta manns gerði læknum kleift að bjarga lífi hans. Það er búið að prenta meira en 200 slík líkön fyrir hjartaaðgerðir, bæklunarskurðaðgerðir og taugaskurðaðgerðir hér á landi.

Tilbúin innan sólarhrings

Með samstarfi HR og Landspítala hefur verið unnið mikið frumkvöðlastarf við þróun á notkun þrívíddarprentunar við undirbúning skurðaðgerða og segja má að Ísland sé í fremstu röð í heiminum þegar kemur að slíkri þjónustu.

Markmiðið með því að nota þrívíddarprentuð líffæri er að bæta undirbúning skurðlækna og þjálfun, bæta árangur af skurðaðgerðum og minnka kostnað við þær. Læknar og skurðlæknar af mismunandi sérsviðum geta núna lagt inn beiðnir fyrir að láta prenta þrívíddarlíkön og þau eru tilbúin innan sólarhrings. Tæknin hefur slegið í gegn og er orðin órjúfanlegur hluti þjónustu innan spítalans og sífellt er verið að víkka út notkunarmöguleikana.

Heilbrigðisverkfræði

Í heilbrigðisverkfræði, sem hefur verið í hraðri þróun undanfarna tvo áratugi, skarast verkfræði, upplýsingatækni og læknisfræði. Námið er hægt að stunda í til Bsc- og MSc-gráðu.

Heilbrigðistæknisvið verkfræðideildar hýsir rannsóknarstarf sem leiðir saman vísindamenn frá margvíslegum fræðasviðum sem eiga það sameiginlegt að móta nýja tækni sem notuð er í læknisfræði eða mun verða notuð í framtíðinni. Auk þess að þróa þrívíddarprentuð líffæri og notkun þeirra fást fræðimenn HR við eftirfarandi verkefni innan heilbrigðisverkfræðinnar:

Vefjaverkfræði tengir saman verkfræði, efnafræði, efnisfræði og líffræði. Verkfræðileg nálgun er nýtt til að hanna og smíða líffæri og vefi.

Heilbrigðistækni og endurhæfing er fræðasvið þar sem verkfræðiaðferðir nýtast við hönnun, þróun og gerð tæknilausna til að leysa vandamál sem eru til komin vegna fötlunar, sjúkdóma eða meiðsla. Sú birtingarmynd þessa rannsóknarstarfs sem við þekkjum sennilega best eru stoðtæki eins og þau sem Össur framleiðir.

Taugaverkfræði er fag sem er í hraðri þróun innan heilbrigðisverkfræðinnar og snýst um að rannsaka taugakerfið til að skilja það betur. Þá fyrst getum við gert við það, bætt það eða nýtt okkur eiginleika þess. Í HR hafa verið þróaðar aðferðir og ferlar til að greina og gera líkön af starfsemi heilans.