Fréttir eftir árum


Fréttir

Þróar nýja tækni í svefnrannsóknum

21.1.2016

Marta Serwatko varði í síðastliðinni viku meistararitgerð sína í heilbrigðisverkfræði við tækni- og verkfræðideild HR en rannsókn hennar fjallar um nýja mæliaðferð til að meta öndunarerfiði í svefni. Marta var í hópi ungra vísindamanna sem hlaut styrk úr Vísindasjóði LSH fyrir rannsóknir sínar í desember 2014 og hefur þegar kynnt forniðurstöður á ráðstefnum.

Öndunartruflanir í svefni stafa af þrengslum í koki og oft heyrast háværar hrotur þegar einstaklingur reynir að draga að sér loft með kröftugri innöndun. Kæfisvefn, sem er dæmi um öndunartruflanir í svefni, einkennist af endurteknum öndunarhléum. 

Nútíma mælitækni á auðvelt með að greina þessi hlé en sjálft öndunarerfiðið er erfitt að greina. Truflanir á öndun í svefni eru mjög algengar og rannsóknir benda til að a.m.k. hluti þeirra sem þjáist af hrotum og auknu öndunarerfiði upplifi neikvæðar afleiðingar þess, þá sérstaklega börn. Það er því mikilvægt að varpa betra ljósi á það hverjir þarfnast meðferðar. Ný aðferð til að mæla öndunarerfiði í svefni hefur verið þróuð innan fyrirtækisins Nox Medical og vann Marta að rannsókn sinni í samstarfi við fyrirtækið.

Huglægt mat dugar skammt

Hingað til hefur öndunarerfiðið verið metið með spurningalista sem viðkomandi svarar sjálfur auk þess sem þrýstingsnema hefur verið komið fyrir í vélinda og látinn vera yfir nótt. „Þessar aðferðir hafa báðar ákveðna galla, að sögn Mörtu. „Með spurningalistanum fæst aðeins huglægt mat sjúklingsins en það er ávallt betra að fá hlutbundnar niðurstöður. Þrýstingsneminn getur skilað slíkum niðurstöðum en er ákaflega óþægilegur. Þá vaknar sú spurning hvort skýr mynd fáist í raun af svefni viðkomandi þar sem neminn getur jafnvel truflað svefninn eða valdið því að einstaklingur byltir sér meira.“ 

Hluti af rannsókn hennar var að skoða hönnun reiknirits fyrir nýtt mælitæki sem getur aðstoðað við greiningu. Um er að ræða tvö belti sem mæla hreyfingar líkamans, eitt utan um brjóstkassann og hitt utan um kviðinn. Búnaðinn má sofa með án óþæginda. Þau gögn sem mælingarnar gefa er hægt að bera saman við mælingar þrýstingsnemans í vélinda, sem er hefðbundna aðferðin. „Niðurstöðurnar gefa til kynna samband á milli þessara tveggja mæliaðferða og nú eftir útskrift er ég að vinna að birtingu niðurstaðna á ritrýndum vettvangi.“

Möguleg bylting í svefnrannsóknum

Ef þessi nýja aðferðafræði reynist vel gæti það valdið umbyltingu í greiningu og aukið skilning á klínísku mikilvægi öndunartruflana í svefni hjá börnum og fullorðnum. „Það er til mikils að vinna ef greining er gerð og einstaklingur veit að hann þjáist af öndunarerfiðleikum í svefni,“ segir Marta. Talið er að ástandið sé áhættuþáttur fyrir óhóflega syfju með aukinni hættu á umferðarslysum, háþrýstingi, hjarta- og æðasjúkdómum (þar með talið æðakölkun), hjartadrepi, heilablóðfalli, taugahrörnun og aukinni tíðni krabbameins. 

„Einstaklingar með ómeðhöndlaða svefnörðugleika eru jafnframt í meiri hættu þegar þeir gangast undir skurðaðgerðir. Þess vegna er þetta verkefni svo mikilvægt því með því að einfalda aðferðirnar til að greina ástandið er auðveldara að veita meðferð.“ Hún segir vísindasamfélagið kalla eftir breytingum á mælingum. Á heimsþingi í svefnrannsóknum fyrir nokkrum misserum hafi farið fram mikil umræða um þetta og að fjöldi svefnsérfræðinga kalli eftir nýjum aðferðum til að meta svefnháðar öndunartruflanir sem hlutfall af allri öndun í svefni en ekki einungis öndunarhléum.

Leiðbeinendur hennar voru Karl Ægir Karlsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík og Erna Sif Arnardóttir, nýdoktor við Háskóla Íslands.

Sjá vef heilbrigðisverkfræði