Fréttir eftir árum


Fréttir

„Þurftum að taka ákvarðanir strax“

19.6.2019

Nemendum Háskólans í Reykjavík gafst færi á að læra ákvörðunarfræði á nýjan og spennandi hátt í alþjóðlegu umhverfi hafnarbæjarins Brest í Bretagnehéraðinu í Frakklandi í vetur. Auk nemenda frá HR tóku franskir og skoskir nemendur þátt.

Viðfangsefni nemendanna voru tengd nýju undirsviði ákvörðunarfræði sem heitir VUCA (volatile, uncertain, complex og ambiguous) en aðferðafræðinni er meðal annars ætlað að vinna með vaxandi þörf fyrir vandaðar ákvarðanir á tímum hverfulleika, óvissu, flækju og tvíræðni. Vinnustofurnar voru hluti af Eramus+ verkefni sem kallast Dahoy og Háskólinn í Reykjavík tekur þátt í. Verkefnið miðar að því að auka færni einstaklinga til að taka ákvarðanir við krefjandi aðstæður. Nemendur fengu ferðir og upphald greitt. Við tókum þrjá nemendur tali sem fóru til Frakklands til að taka þátt í vinnustofunum.

Nemendur brjóta heilann um verkefni í skólastofuSjóorrustan í fullum gangi hjá HR-ingunum.

Áttu að sökkva kafbát

Kristjana Ósk Kristinsdóttir, nemi í heilbrigðisverkfræði, var í fyrra námskeiðinu í febrúar en það var alls fimm dagar að lengd. „Ég á mjög erfitt með að taka ákvarðanir! Það má segja að það hafi verið ein helsta ástæðan fyrir því að ég sótti um.“ Námskeiðið var skipulagt af Ecole Naval sjóliðsforingjaskólanum. Nemendurnir lærðu um samvinnu, sameiginlega ákvörðunartöku, leiðtogafræði og hvernig þau geta orðið öflugri einstaklingar, leiðtogar og stjórnendur.

„Fyrri leikurinn var léttur og minnti helst á sjóorrustuleik en seinni var flóknari. Okkur var skipt í tvö lið og einn nemandi var valinn sjóliðsforingi og fékk talstöð. Liðin áttu að hafa samskipti við hann og láta vita hvort þau vildu færa skip eða sprengja önnur skip. Þessi leikur tók allan daginn. Við áttum að finna kafbát og sökkva honum og þurftum að taka ákvarðanir strax. Liðið mitt var skipað nemendum úr HR og okkur gekk vel. Í lok dags var frammistaðan metin og þá voru sérfræðingarnir ekki ánægðir með hversu mörg skip við misstum en aftur á móti ánægðir með hversu vel við unnum saman.“

Kristjana segir það hafa verið framandi aðstæður að taka ákvarðanir í sjóhernaði, til dæmis um að sökkva skipum. „Þetta var samt mjög gaman og við lærðum mikið um til dæmis mikilvægar ákvarðanir  sem hafa haft miklar afleiðingar fyrir Frakkland í gegnum aldirnar. Þessi hernaðarsaga er svo frábrugðin okkar sögu á Íslandi.“

Nemendur sitja við borð úti og drekka bjór.Að vinnustofum loknum nutu nemendur HR lífsins í Brest. Kristjana Ósk er þriðja frá vinstri.

Dúkku kastað fyrir borð

Eiríkur Ari Sigríðarson, nemi í rekstrarverkfræði, og Ívar Örn Kristjánsson, nemi í hugbúnaðarverkfræði, voru í seinna námskeiðinu sem var vinnustofa skipulögð af IMT Atlantique verkfræðiháskólanum. Þar fengu þeir þjálfun sem fór að mestu fram á sjó og miðaði að því að nemendur lærðu að styrkja sig sem einstaklinga og sem hluta af hópi við að gera æfingar á sviði ákvörðunarfræða og leiðtogafræða.

„Þetta var þétt dagskrá alla dagana í 10 tíma á dag,“ segir Eiríkur. „Við fórum á skútu og lærðum að sigla. Úti á flóanum vorum við látin leysa allskonar þrautir, til dæmis var dúkku kastað fyrir borð og við þurftum að bregðast hratt við og taka réttar ákvarðanir í sameiningu. Svo vorum við æfð í þessu aftur og aftur. Þetta gekk hræðilega í byrjun en svo betur! Það var mjög lærdómsríkt að þurfa að hugsa um hvað maður á að gera í svona óvenjulegum aðstæðum.“

Tveir menn í blautgöllum standa við borðstokk skips.Tilbúnir að stökkva í sjóinn.

Annað verkefni var að skipuleggja siglingu skips um Brest-flóann þar sem þurfti að reikna út hraða og hnit sem þeir Eiríkur og Ívar segja hafa verið krefjandi. „Þessi áfangi kom mér eiginlega á óvart og þá sérstaklega hversu mikið við vorum úti á sjó,“ segir Ívar Örn. „Þetta var mjög góð reynsla og frábært að hafa þetta á ferilskránni.“

Nokkrir nemendur grúfa sig yfir sjókort.

Þess má geta að 12 erlendir nemendur koma í september í VUCA-dagskrá sem er skipulögð af HR. Sú dagskrá er meðal annars felld inn í Hamfaradaga og reiknað er með að fjórir íslenskir nemendur taki þátt í þeim viðburði.