Fréttir eftir árum


Fréttir

Til hvers eru lögin?

23.3.2015

Ragnhildur Helgadóttir„Það væri svo ofboðslega leiðinlegt í umferðinni ef við keyrðum bæði hægra megin og vinstra megin,“ sagði Ragnhildur Helgadóttir, forseti lagadeildar, í þættinum Víðsjá á RÚV þann 6. mars sl. Ragnhildur var einn gesta þáttarins sem tileinkaður var almennri umræðu um lög.

Fræðigreinin var rædd frá ýmsum hliðum, út frá hugmyndum um lýðræði, stjórnspeki og heimspeki. Viðmælendur þáttarins voru auk Ragnhildar þau Björg Thorarensen prófessor við Háskóla Íslands, Helga Vala Helgadóttir lögfræðingur, Hrafn Ásgeirsson heimspekingur og Brynjar Níelsson, alþingismaður.

Lögin, sem grunnreglur samfélagsins, eru að sögn Ragnhildar nauðsynlegar og í raun óumflýjanlegar. „Ef við værum ekki með lög þá myndum við á endanum finna út úr því og setja niður reglur. En erum við þá ekki bara komin með lög?“ Hún segir lögin bæði hafa rými til túlkunar og að sama skapi í grunninn hagnýt og fastbundin. „Það er ekkert ljótt og það er ekkert svindl og það er enginn að reyna að níðast á neinum þó að það þurfi að túlka lög. Textar eru ófullkomnir. Það er engin ástæða til að vantreysta lögunum þó að það þurfi að vinna með þau til að komast að niðurstöðu. Að því sögðu er auðvitað best að þau séu sem skýrust og fyrirsjáanleg og að við getum öll hagað lífi okkar eftir þeim.“

„Það er að mörgu leyti svipuð lagahefð hér og í Noregi og Danmörku. Auðvitað eru atriði sem eru mismunandi en það hefur verið talið einkennandi fyrir Norðurlöndin að þar sé sérstaklega hagnýt nálgun á lögin, frekar en á meginlandinu. Við leggjum mikið upp úr því að halda okkur við skynsemina, það séu ekki túlkunarreglur sem beina okkur í hvaða átt sem er heldur sé alltaf ákveðin jarðtenging og það er að sumu leyti svolítið skemmtilegt.“ 

Hér er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni