Fréttir eftir árum


Fréttir

Tímarit HR komið út

20.10.2015

Nýtt Tímarit Háskólans í Reykjavík er komið út en blaðið kemur út einu sinni á ári. Tímarit Háskólans í Reykjavík gefur lesendum innsýn í fjölbreytt viðfangsefni nemenda og kennara við HR, í lífi og starfi.

Meðal efnis eru viðtöl við fræðimenn HR um rannsóknir á stöðu kvenna á vinnumarkaði, innra eftirlit íslenskra fyrirtækja eftir hrun, íþróttafræði, sjórétt, framúrkeyrslu opinberra framkvæmda úr fjárhagsáætlunum, nýja kennslufræðistofnun og margt, margt fleira. Deildarforsetar fjögurra akademískra deilda skrifa um sín hugðarefni eins og takmarkaðan fjölda kvenna í Hæstarétti, framtíðina með tölvum og vélmennum, góða stjórnarhætti fyrirtækja og eldsneytisframleiðslu með rafmagni. 

Einnig er í blaðinu umfjöllun um hvernig stjórnendur í atvinnulífinu sjá fyrir sér háskólamenntun í framtíðinni og greint er frá áhugaverðum verkefnum nemenda Háskólans í Reykjavík, þar á meðal nýju forriti sem gert var fyrir Landsbjörgu, íþróttaskóla fyrir þroska- og hreyfihömluð börn og nýjustu tækni í gerð gervifóta hjá Össuri.

Tímarit HR er sent heim til núverandi og fyrrverandi nemenda háskólans og til starfsmanna. Blaðinu er þar að auki dreift á kaffihús og í ýmis almannarými eins og bókasöfn, verslanamiðstöðvar, sundlaugar og á fleiri staði. 

Hér er hægt að lesa blaðið á netinu

Tímarit HR komið út