Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Fjórar konur skipaðar við Hæstarétt frá upphafi

10.6.2016

Tímarit Lögréttu er gefið út í samstarfi laganema og kennara við lagadeild HR og kemur út tvisvar á ári. Það byggist á þemaumfjöllun hverju sinni auk vandaðra greina um lögfræðileg málefni. Nýlega kom út fyrsta tölublað 12. árgangs Tímarits Lögréttu og er blaðið að þessu sinni helgað konum í Hæstarétti. Skipaðir dómarar við réttinn frá stofnun hans árið 1920 eru fimmtíu talsins og þar af fjórar konur, eða 8%. Ritið hefur að geyma viðtöl við dómarana fjóra, Guðrúnu Erlendsdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Hjördísi B. Hákonardóttur og Gretu Baldursdóttur, auk ljósmynda, m.a. af þeim öllum saman í dómsal Hæstaréttar. Inngangserindi að umfjölluninni ritar Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Fjórar konur sitja í HæstaréttiGreta Baldursdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, Guðrún Erlendsdóttir og Hjördís B. Hákonardóttir.

Viðtölin eru forvitnileg fyrir margra hluta sakir. Guðrún Erlendsdóttir lýsir t.d. þeirri skoðun sinni að gæta þurfi að kynjahlutföllum í fjölskipuðum dómi, því að konur færi fram sjónarmið sem karlar hafi jafnvel ekki hugsað um. „Konur sjá álitaefni oft frá öðrum hliðum en karlar,“ segir hún. Greta Baldursdóttir er spurð hvort hún haldi að Hæstiréttur dæmdi öðru vísi en hann gerir ef hann væri allur skipaður körlum eða allur konum. „Það held ég ekki,“ svarar hún. „Samt yrði óneitanlega gott fyrir réttinn ef fleiri konur væru dómarar en raun ber vitni. Við þurfum líka að hugsa um ásýnd dómstólsins.“ Merkileg eru ummæli Ingibjargar Benediktsdóttur um landsdómsmálið: „Að mínu mati er þetta mál sem betur hefði ekki farið af stað,“ segir hún. Hjördís B. Hákonardóttir telur með helstu áskorunum dómstólanna að setja sér siðareglur: „Að mínu mati myndi það skipta miklu fyrir traust til dómstólanna að dómarar settu sér siðareglur að undangenginni umræðu um þau gildi sem þar skipta máli og um hvernig dómurum beri að koma fram.“

Meðal annars efnis í Tímariti Lögréttu er grein eftir dr. Guðmund Sigurðsson prófessor sem nefnist „Ábyrgð á tjóni af völdum mengunar frá skipum“, Bjarnfreður Ólafsson hrl. skrifar grein sem hann nefnir „Hryggjarstykki skattaréttar – Lögskýringin“ og Aldís Geirdal hdl. birtir grein sem ber heitið „Smámálameðferð – Bættur aðgangur að dómstólum“. Í tímaritinu er einnig að finna minningarorð Svölu Ísfeld Ólafsdóttur um Ragnhildi Helgadóttur, fyrrverandi ráðherra. Loks ritar Þór Jónsson, meistaranemi við lagadeild HR, greinina Ubi jus ibi remedium est. Arnar Þór Jónsson, lektor við HR og ritstjóri blaðsins, fylgir því úr hlaði með aðfararorðum um samspil dómstarfa og samfélags o.fl.

Tímarit Lögréttu er að venju veglegt, 234 blaðsíður að lengd. Ritstjórn skipa Arnar Þór Jónsson ritstjóri, Eiríkur Elís Þorláksson, lektor við lagadeild HR, Sigríður Árnadóttir saksóknarfulltrúi, Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, og Svala Ísfeld Ólafsdóttir. Útgáfunefnd af hálfu laganema skipa Ásta Margrét Eiríksdóttir, útgáfustjóri, Alexandra Arnarsdóttir, Anna Kristrún Einarsdóttir og Harpa Erlendsdóttir, en Þór Jónsson hafði framkvæmdastjórn útgáfunnar með höndum.

Í heiðursritnefnd Tímarits Lögréttu sitja Bryndís Hlöðversdóttir, Davíð Þór Björgvinsson, Guðmundur Alfreðsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jakob Þ. Möller, Jóhann Hjartarson, Ragnar Aðalsteinsson, Ragnheiður Harðardóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Sigríður Friðjónsdóttir og Símon Sigvaldason.

Almennt áskriftarverð Tímarits Lögréttu er kr. 4.900 fyrir tvö tölublöð á ári. Sækja má um áskrift á netfanginu askrift@logretta.is. Slóðin á vefsíðu tímaritsins er timarit.logretta.is.