Fréttir eftir árum


Fréttir

Tíu ára afmælisrit Tímarits Lögréttu komið út

11.2.2015

Stór hluti þess er helgaður umfjöllun um íslenska dómara við alþjóðlega dómstóla, sem án efa verður söguleg heimild þegar fram líða stundir. Tímariti Lögréttu er ætlað að vera vettvangur vandaðrar umfjöllunar og ritrýndra fræðigreina um lög og rétt, þar sem viðfangsefnið er skoðað út frá fleiri sjónarhornum en einungis hinu lögfræðilega.Forsíða afmælisrits Lögréttu

Afmælisritið veitir forvitnilega og fræðandi sýn inn í dómstörf á alþjóðlegum vettvangi og yfirlit um þátt Íslendinga í starfsemi alþjóðlegra dómstóla sem skipa sífellt mikilvægari sess í samstarfi þjóða.

Dómararnir, sem fjallað er um í greina- eða viðtalsformi, eru Einar Arnalds, Sigurgeir Sigurjónsson, Þór Vilhjálmsson, Gaukur Jörundsson, dr. Davíð Þór Björgvinsson og Róbert R. Spanó, sem voru skipaðir dómarar við Mannréttindadómstól Evrópu, en Þór Vilhjálmsson var enn fremur dómari við EFTA-dómstólinn, þar sem einnig voru skipaðir Þorgeir Örlygsson og dr. Páll Hreinsson, þá Guðmundur Eiríksson og Tómas H. Heiðar, sem voru skipaðir dómarar við Alþjóðlega hafréttardóminn, og loks Jakob Þ. Möller, sem var dómari í Mannréttindadómstólnum fyrir Bosníu og Hersegóvínu.

Ritið hefur auk umfjöllunar um íslenska dómara við alþjóðlega dómstóla m.a. að geyma greinar fræðimanna.

Meðal þeirra eru:

  • Hallgrímur Ásgeirsson, yfirlögfræðingur Landsbankans hf., fjallar um takmarkanir á heimildum fjármálafyrirtækja til að eiga hluti í fyrirtækjum í óskyldum rekstri.
  • Greinin Bútasaumur eftir Hafstein Þór Hauksson, lektor við lagadeild HÍ, er um endurskoðun Stjórnarskrár lýðveldisins, sem telja má þýðingarmikið innlegg til áframhaldandi rökræðu um þetta mál.
  • Í yfirlitsgrein um tiltekna meginstrauma í lögfræði spyr Arnar Þór hvort telja megi lög vera stjórntæki valdhafa eða sprottin úr grasrót samfélagsins.
  • Þá er að finna grein eftir Hrafn Bragason, sem um tuttugu ára skeið gegndi starfi dómara við Hæstarétt Íslands. Greinin er merkt framlag í ljósi þeirrar miklu endurnýjunar sem orðið hefur á skipan réttarins á síðustu misserum.
  • Auk þess eru kynningar á dómstólunum sem dr. Bjarni Már Magnússon, sérfræðingur við lagadeild HR, Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og fyrrnefndir Davíð Þór Björgvinsson og Jakob Þ. Möller sömdu.

„Það er von okkar sem að útgáfu tímaritsins stöndum að með endurnýjun þess eflist umræða um lög og lögfræði enn frekar,“ segir Arnar Þór Jónsson, lektor við lagadeild, í ritstjóraávarpi.

Ritstjórn Tímarits Lögréttu skipa lögfræðingarnir Arnar Þór Jónsson ritstjóri, Eiríkur Elís Þorláksson, lektor við lagadeild HR, Sigríður Árnadóttir saksóknarfulltrúi, Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, og Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR. Útgáfustjórn af hálfu laganema skipa Sólveig Erla Oddsdóttir útgáfustjóri, Diljá Helgadóttir, Helena Svava Jónsdóttir og Helga Lovísa Kemp, en Þór Jónsson hafði framkvæmdastjórn verksins með höndum.

Ritstjórn afmælisrits Lögréttu

Í heiðursritnefnd Tímarits Lögréttu sitja Bryndís Hlöðversdóttir, Davíð Þór Björgvinsson, Guðmundur Alfreðsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jakob Þ. Möller, Jóhann Hjartarson, Ragnar Aðalsteinsson, Ragnheiður Harðardóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Sigríður Friðjónsdóttir og Símon Sigvaldason.

Afmælisritið mun m.a. fást í lausasölu í Bóksölu stúdenta en almennt áskriftarverð Tímarits Lögréttu er kr. 4.900 fyrir tvö tölublöð á ári.

  • Sækja má um áskrift á netfanginu askrift@logretta.is.
  • Slóðin á vefsíðu tímaritsins er www.timarit.logretta.is.