Fréttir eftir árum


Fréttir

Tölvuleikur nýttur í þágu læknavísindanna

19.11.2015

Ungir tölvunarfræðinemar við Háskólann í Reykjavík taka þessa dagana þátt í stóru rannsóknarverkefni sem nær til þriggja Evrópulanda. Verkefnið er jafnframt hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum og gengur út á að virkja hinn mikla fjölda leikjaspilara í tölvuleiknum Eve Online í þágu læknavísindanna. Spilarar hjálpa þannig vísindamönnum að finna orsakir sjúkdóma í mannslíkamanum. Greint var frá rannsókninni í septemberútgáfu hins virta vísindarits Nature.

ProjectDiscovery

Vísindamenn við sænsku tækniháskólana KTH og Háskólann í Uppsölum eru um þessar mundir að kortleggja prótein í frumum mannslíkamans. Verkefnið heitir Human Protein Atlas. Markmiðið er að skilja hlutverk próteins í frumum með það fyrir augum að sú þekking geti nýst til að lækna sjúkdóma eða koma í veg fyrir þá. Þetta er ærið verk sem myndi taka lítinn hóp vísindamanna mörg ár að ljúka.

Máttur fjöldans og citizen science

Hjalti Leifsson og Jóhann Örn Bjarkason eru þriðja árs nemar í tölvunarfræði við HR. Hlutverk þeirra er að gera tölvuleik sem komið er fyrir inni í Eve Online tölvuleiknum. Spilarar geta valið að spila leik Hjalta og Jóhanns sem heitir  Project Discovery, og um leið unnið sér inn verðlaun í Eve Online. Það sem spilararnir eru þó að gera er að flokka myndir af frumum eftir mynstrum og í leiðinni að kortleggja prótein í frumum mannslíkamans. 

Þetta snýst um að láta spilara ljúka verkefni eins og í flestum tölvuleikjum. Við notum mátt fjöldans til að vinna verk sem myndi annars taka mörg ár. Þetta er kallað  citizen science, eða borgaravísindi, leikmenn nýta tíma sem annars fer ef til vill í að bíða eftir einhverju í Eve Online og leggja sitt af mörkum á meðan til þess að lækna sjúkdóma. Spilarar í Eve Online vita að þetta er tilgangurinn með leiknum og hafa tekið afar vel í þetta. Það eru allir mjög spenntir enda er þetta í fyrsta sinn sem þetta er gert í vinsælum, almennum tölvuleik.

Tolvuleikur_nyttur_i_thagu_laeknavisindanna

Hjalti Leifsson og Jóhann Örn Bjarkason

Það er ekki hægt að láta tölvur vinna verkefnið því enn sem komið hafa þær ekki þá eiginleika sem nauðsynlegir eru til að geta greint mynstur á sama hátt og mannsheilinn. Það eru þó tölvur sem flokka gögnin og sannreyna þau, en það er gert í Sviss hjá ungu sprotafyrirtæki, Massively Multiplayer Online Science  (MMOS), sem sérhæfir sig í að tengja vísindarannsóknir og tölvuleiki. Þegar nógu margir spilarar hafa flokkað mynd á sama hátt telst kortlagningin hafa tekist. MMOS sannreynir gögnin og sendir þau svo á aðgengilegu formi til vísindamannanna í Svíþjóð.

Með vísindamenn um alla Evrópu á línunni

Hvernig skyldu svo tveir tölvunarfræðinemar á Íslandi hafa komið inn í þetta stórmerkilega verkefni? „Á hverju ári er haldið verklegt þriggja vikna námskeið í tölvuleikjagerð, þar sem nemendur eiga að vinna tölvuleik út frá eigin hugmynd á þremur vikum. Við unnum saman að leik í námskeiðinu í vor.“ Umsjón með námskeiðinu er í höndum David Thue,  lektors við tölvunarfræðideild HR og sérfræðings í notkun gervigreindar í leikjaþróun. Staða hans við tölvunarfræðideild HR er styrkt af CCP sem framleiðir meðal annars leikinn Eve Online. David hafði samband við nemendur sem höfðu verið hjá honum í kúrsi í tölvuleikjagerð. Hjalti tók við af Gunnari Þór Stefánssyni og vann við verkefnið í sumar ásamt Þór Adam Rúnarssyni, þökk sé styrk frá Rannís. Verkefninu var svo haldið áfram sem lokaverkefni í haust og þá kom Jóhann inn. 

Þeir Hjalti og Jóhann Örn eru í óða önn að vinna í verkefninu á sama tíma og þeir sinna náminu. 

Þetta er rosa vinna og mikil pressa en gríðarlegur lærdómur. Það er óneitanlega skrítið að vera allt í einu komnir í hringiðu alþjóðlegs rannsóknasamstarfs með fólk frá mismunandi löndum að bíða eftir að þú skilir þínum hluta. Við reynum að segja við fólk að við getum ekki gert mikið þessa dagana af því við erum í prófum. Það eru örugglega flestir sem koma að þessu löngu búnir með allt slíkt!

Fara á vef tölvunarfræðideildar HR


Meira um verkefnið: