Fréttir eftir árum


Fréttir

Tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík hlýtur alþjóðlega gæðavottun

30.5.2017

Námsbrautir í grunn- og meistaranámi við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík hafa hlotið evrópsku gæðavottunina EQANIE eða European Quality Assurance Network for Informatics Education, til fimm ára. Háskólinn í Reykjavík er fyrsti og eini háskólinn hér á landi til að hljóta þessa gæðavottun.

Markmið EQANIE vottunarinnar er að auka gæði námsbrauta í upplýsingatækni í Evrópu, að veita upplýsingar um nám í upplýsingatækni í Evrópu með viðeigandi vottun á námsbrautum, að auðvelda  gagnkvæma viðurkenningu á hæfni í upplýsingatækni innan Evrópu og að auka hreyfanleika nemenda. Í vottunarferlinu er megináhersla lögð á úttekt á gæðum námsins og námsfyrirkomulagsins, hvort nemendur nái þeim námsmarkmiðum sem brautin setur og að þau séu í samræmi við evrópska staðla.

Dr. Yngvi Björnsson, forseti tölvunarfræðideildar HR segir að EQANIE-vottunin sé mikilvægur gæðastimpill fyrir deildina og viðurkenning á því góða starfi sem þar fari fram. „Það er mikilvægur hluti af stefnu Háskólans í Reykjavík að bjóða nemendum afburða gott og alþjóðlega viðurkennt nám. Með þessari vottun hafa nemendur okkar enn betri möguleika á störfum út um allan heim, flutningi milli háskóla og framhaldsnáms við erlenda háskóla.“

Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík er stærsta tölvunarfræðideild landsins. Árið 2016 brautskráðust 189 nemendur frá deildinni. Deildin hefur allt frá stofnun lagt metnað í að útskrifa vel menntað og hæft starfsfólk fyrir upplýsingatæknigeirann ásamt því að undirbúa nemendur fyrir frekara nám. Í dag stunda hátt í 1000 nemendur nám við deildina á fjölbreyttum sviðum upplýsingatækni, s.s. tölvunarfræði, tölvunarstærðfræði, upplýsingastjórnun og hugbúnaðarverkfræði. Kennslan fer fram í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir á Íslandi og erlendis, sem m.a. er á formi beinnar aðkomu að þróun námsbrauta, stundakennara frá fyrirtækjum, umsjón lokaverkefna og starfsnáms. Boðið er upp á nám á diplóma-, bakkalár-, meistara- og doktorsstigi. Fjölbreyttar rannsóknir eru stundaðar við deildina, m.a. á sviði gervigreindar, hugbúnaðarkerfa, og fræðilegrar tölvunarfræði. Fræðimenn við tölvunarfræðideild HR birtu 32 greinar á ritrýndum vettvangi árið 2016.

Vefur EQANIE

Tölvunarfræði við HR