Fréttir eftir árum


Fréttir

Tölvunarfræðideildir HR og HÍ hljóta Upplýsingatækniverðlaun SKÝ 2018

6.4.2018

Verðlaunahafar Upplýsingatækniverðlauna Skýrslutæknifélags Íslands, SKÝ, árið 2018 eru tölvunarfræðideildir Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands. Verðlaunin hljóta háskólarnir fyrir framlag sitt til menntunar í upplýsingatækni hér á landi. Tölvunarfræði hefur verið kennd við Háskólann í Reykjavík frá stofnun háskólans árið 1998, og frá árinu 1976 við Háskóla Íslands.

Á mynd frá vinstri: Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar við Háskóla Íslands, sem sat í valnefnd vegna verðlaunanna. Kristján Jónasson, prófessor við Háskóla Íslands, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem afhenti verðlaunin, og Gísli Hjálmtýsson forseti tölvudeildar Háskólans í Reykjavík.

Á mynd frá vinstri: Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar við Háskóla Íslands, sem sat í valnefnd vegna verðlaunanna. Kristján Jónasson, prófessor við Háskóla Íslands, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem afhenti verðlaunin, og Gísli Hjálmtýsson forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík. 

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að tölvunarfræði og tæknimenntun séu að verða ein af grundavallarstoðum íslensks atvinnulífs og að íslensk tölvufyrirtæki standi vel að vígi með háskólamenntaða starfsmenn. Háskólinn í Reykjavík hefur útskrifað yfir 1250 einstaklinga í tölvunarfræðigreinum frá upphafi náms árið 1998. Af þeim hafa yfir 80 lokið meistaragráðu og 10 doktorsgráðu. Á síðasta ári útskrifaði HR um 220 nemendur í upplýsingatækni.

Hafa skilað samfélaginu miklu
Háskólinn í Reykjavík hefur sinnt þörfum atvinnulífs og samfélags frá stofnun og hefur menntun í upplýsingatækni verið stór þáttur í því enda eykst sífellt eftirspurn eftir starfsfólki með slíka þekkingu. Í upphafi var boðið upp á grunnnám og meistaranám í tölvunarfræði og diplómanám í kerfisfræði. Síðar bættist hugbúnaðarverkfræði við og svo tölvunarstærðfræði. Til að halda áfram að mæta þörfum atvinnulífsins hafa á síðustu árum bæst við brautir sem tengja tölvunarfræði og viðskipti, en í boði eru bæði grunnnám í tölvunarfræði með áherslu á viðskiptafræði og meistaranám í upplýsingastjórnun. Ennfremur er nú boðið upp á nám í tölvunarfræði á Akureyri í samstarfi við Háskólann á Akureyri.

Í rökstuðningi dómnefndar er það jafnframt tekið fram að kennsla og rannsóknir í tölvunarfræði við HR hafi skilað samfélaginu miklu í gegnum árin og að það megi þakka því frábæra starfsfólki sem starfi í tölvunarfræðideild HR.

Hlutur kvenna að aukast
Frá því kennsla hófst í tölvunarfræði á Íslandi hefur meirihluti nemenda verið karlar. Staðan hefur breyst töluvert síðustu ár og má þakka átaksverkefni Háskólans í Reykjavík, Stelpur og tækni, og starfsemi /sys/tra, félagi um aukinn hlut kvenna í tölvunarfræði við HR að einhverju leyti þennan árangur. Í dag er hlutfall kvenna meðal nýnema í tölvunarfræði við HR komið í um þriðjung. Báðum háskólum hefur tekist að auka áhuga kvenna á faginu og nú er hvergi jafn mikil fjölgun nýinnritaðra kvenna í tölvunarfræði og í háskólunum hér á Íslandi.

Valnefnd
Í valnefnd voru Guðbrandur Örn Arnarson hjá SAReye, Jóhannes Jónsson hjá Ríkisskattstjóra, Steinunn Gestsdóttir hjá Háskóla Íslands, Svana Gunnarsdóttir hjá Frumtak Ventures, Snæbjörn Ingi Ingólfsson hjá Origo og Arnheiður Guðmundsdóttir hjá Ský. Verðlaunagripurinn er glerlistaverk eftir Ingu Elínu. Valnefndin hafði skv. reglum að leiðarljósi að verðlaunin væru veitt fyrir framúrskarandi framlag á sviði upplýsingatækni þar sem handhafi þeirra hafi skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni.