Fréttir eftir árum


Fréttir

Tveggja metra reglan tekin upp að nýju

8.10.2020

Vegna fjölda Covid smita í samfélaginu hafa yfirvöld gripið til hertra sóttvarna, sem meðal annars leiða til frekari takmörkunar á skólastarfi.

Sóttvarnaryfirvöld mælast mjög ákveðið til þess að þau sem það geti, vinni og stundi nám sitt heima næstu tvær vikurnar. Markmiðið er að ná tökum á þessari þriðju bylgju Covid faraldursins en fjöldi smita virðist nú vera í veldisvexti. Sérreglur um skóla eru hins vegar settar til þess að hægt sé að viðhalda einhverri kennslu og námi á staðnum, með takmörkunum. Því verður aðstaðan í HR áfram opin nemendum og í ákveðnum námskeiðum býðst nemendum sem það kjósa að sækja tíma.

Mynd af sprittstandi og leiðbeiningum í HR vegna Kovit 19Lykillinn að því að það náist að kveða niður þessa bylgju er að hver og einn gæti mjög vel að sínum persónulegu sóttvörnum, reglulegum handþvotti og sótthreinsun á höndum, sótthreinsun á aðstöðu að lokinni notkun, grímunotkun þar sem þess er þörf og fjarlægðarmörkum.

  • Tveggja metra nálægðarreglan hefur verið tekin upp að nýju.
  • Ekki mega ekki meira en þrjátíu manns vera í kennslurýmum.
  • Vinnu- og lesrýmum hefur verið skipt niður í afmörkuð sóttvarnarhólf að nýju og mega mest þrjátíu manns vera í hverju hólfi.
  • Sótthreinsa skal hendur áður og eftir að farið er inn í sóttvarnarhólf og kennslurými.
  • Ganga skólans má áfram nota til að fara á milli svæða.
  • Grímuskylda er fyrir alla á öllum göngum, salernum og opnum svæðum háskólans sem eru utan sóttvarnarhólfa. Ennfremur þarf að bera grímur alls staðar þar sem ekki er hægt að viðhafa tveggja metra fjarlægðarreglu. Ekki er grímuskylda í skólastofum og lesrýmum þar sem hægt er að viðhafa tveggja metra reglu.
  • Kennarar þurfa ekki að nota grímu í kennslu ef þeir geta viðhaft að minnsta kosti tveggja metra fjarlægð milli sín og nemenda.
  • Mikil áhersla er lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir, handþvott og sótthreinsun á höndum, sótthreinsun á aðstöðu að lokinni notkun, grímunotkun og fjarlægðarmörk. Sótthreinsa skal hendur fyrir og eftir að komið er við sameiginlega snertifleti, svo sem í lyftum, á salernum, á kaffivélum og sjálfsölum.
  • Málinu og annarri þjónustu utanaðkomandi aðila í húsinu hefur verið lokað, að undanskilinni Háskólabúðinni.

Þessar hertu sóttvarnir eru vissulega skref til baka, en þær eru tímabundnar. Munum að áður hefur náðst mjög góður árangur í baráttunni við faraldurinn með samstilltu átaki og það er engin ástæða til að ætla annað en að það takist einnig vel að þessu sinni. Gætum vel að eigin heilsu, mætum ekki í skólann með einkenni og munum að persónulegar sóttvarnir eru besta vörnin.

Algengar spurningar og svör varðandi Covid og viðbrögð HR er að finna á vef HR.