Fréttir eftir árum


Fréttir

Tvö verkefni í verkfræðideild hljóta samtals 17 milljóna króna styrki

Alls hljóta 17 verkefni styrk úr VOR, Vísindasjóði OR

11.10.2022

Fyrsta úthlutun úr Vísindasjóði OR, VOR, fór fram í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur síðastliðinn föstudag. Hátt í hundrað milljónum var úthlutað til 17 verkefna. Brynhildur Davíðsdóttir formaður stjórnar OR sagði við þetta tilefni að OR samstæðan reiði sig mikið á vísinda- og rannsóknarstörf sem fram fari utan fyrirtækisins sem og uppeldi háskólanna á vísindafólki framtíðarinnar. Tvö verkefni frá verkfræðideild Háskólans í Reykjavík hlutu 8,5 milljón króna styrk hvort.

Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, dósent við verkfræðideild, hlaut styrk fyrir verkefnið Development of Iceland-TIMES for the analysis of the Icelandic energy system. Verkefnið gengur út á að þróa útgáfu af IEA (International Energy Agency) TIMES-VEDA líkaninu til að greina íslenska orkuhagkerfið. TIMES-VEDA líkanið er hagfræðilegt bestunarlíkan hannað til að finna sem hagkvæmasta lausn á skipulagi orkumála með tilliti til framboðs, eftirspurnar, reglugerðum og ákvörðunum stjórnvalda. TIMES-VEDA líkanið er mikið notað í Evrópu  og sérstaklega Skandinavíu en til þessa hefur líkanið ekki verið útfært sérstaklega fyrir Ísland.

VOR-Hopmynd-2022-FinalF_102.2e16d0ba.fill-2044x1148-c100

Hér má sjá styrkþega eða fulltrúa þeirra ásamt stjórn sjóðsins.

María Sigríður Guðjónsdóttir, lektor við verkfræðideild, hlaut styrk fyrir verkefnið GeoEjector: life extension of weak geothermal wells. Markmið með verkefninu GeoEjector er að rannsaka möguleika á ejector tækni til að tengja saman miskraftmiklar jarðhitaborholur. Þannig væri mögulega hægt að lengja líftíma kraftminni borhola og minnka þörf á að bora nýjar borholur. Notuð eru svokölluð CFD (Computational Fluid Dynamics) líkön og mælingar á tilrauna- og raunskala til að rannsaka notkunarmöguleika þessarar tækni. Verkefnið hefur verið styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís en með þessum styrk er hægt að auka vægi CFD hluta verkefnisins.

Stjórn VOR skipa auk Brynhildar stjórnarformanns þau Bjarni Bjarnason forstjóri OR og fyrrum rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir.

Tilgangur og markmið sjóðsins er þríþætt:

 

  • Að styðja við framtíðarsýn OR sem er að auka lífsgæði með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.
  • Að stuðla og styrkja rannsóknir á starfssviði OR með sérstakri áherslu á þau heimsmarkmið sem eru í forgangi hverju sinni í samræmi við stefnu OR.
  • Að styrkja rannsóknir meistara og doktorsnema sem tengjast starfssviði og áherslum OR.

 

Meðhöndlun umsókna sem berast sjóðnum er í höndum fagráðs sem samanstendur af fimm sérfræðingum auk formanns. Formaðurinn er Hera Grímsdóttir framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá OR en aðrir fagráðsmeðlimir eru Arndís Ósk Arnalds frá Vegagerðinni, Halldór Björnsson frá Veðurstofu Íslands, Hlynur Stefánsson frá Háskólanum í Reykjavík, Þröstur Olaf Sigurjónsson frá Háskóla Íslands og Sóley Tómasdóttir frá Just Consulting. Með fagráðinu starfaði síðan fjöldi matsmanna auk starfsmanns sjóðsins henni Halldóru Guðmundsdóttur.

Í ár bárust sjóðnum 49 styrkumsóknir fyrir tæplega 610 miljónum króna. Eftir matsferlið var niðurstaðan sú að 17 verkefni hljóta styrk í ár. Af þessum 17 eru 9 námsstyrkir sem fara í að fjármagna meistara og doktorsnema og 8 eru verkefnastyrkir. Kynjaskipting er nokkuð jöfn en 9 verkefnanna er stýrt af konum og 8 af körlum.