Fréttir eftir árum


Fréttir

Um nýjar takmarkanir á samkomum og upphaf skólaársins

31.7.2020

Samkvæmt nýjum takmörkunum á samkomum sem gilda til 13. ágúst hefur tveggja metra reglan aftur tekið gildi og samkomur mega ekki vera stærri en 100 manns.

Nokkur námskeið hefjast í HR í næstu viku og gert er ráð fyrir að hægt verði að kenna þau öll í staðkennslu, með nokkrum tilfæringum þó, þrátt fyrir þessar takmarkanir. Nýnemadagar frumgreinadeildar verða þó ekki haldnir með hefðbundnu sniði.

Það er ekki ljóst hvert framhaldið verður eftir 13. ágúst og mun HR fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum sóttvarnaryfirvalda, sem geta breyst með skömmum fyrirvara, eftir því hvernig samfélaginu gengur að eiga við faraldurinn. Almennt mun kennsla hefjast 17. ágúst samkvæmt áætlun. Starfsfólk HR hefur undanfarnar vikur og mánuði undirbúið næstu önn miðað þá óvissu sem er uppi. Ef takmarkanir verða enn í gildi eftir 13. ágúst er markmið HR að slíkt hafi sem allra minnst áhrif á kennslu og aðra þjónustu við nemendur háskólans. Nánari upplýsingar verða sendar til nemenda áður en kennsla hefst.