Fréttir eftir árum


Fréttir

Umsóknum fjölgar um nám við Háskólann í Reykjavík

Yfir 30% fjölgun umsókna um meistaranám og um grunn- og diplómanám í iðn- og tæknifræðideild og sálfræðideild

18.6.2020

Alls hafa Háskólanum í Reykjavík borist tæplega 3.900 umsóknir um skólavist fyrir næsta skólaár. Það er um 13% fjölgun frá síðasta ári og aldrei hafa fleiri sótt um nám við háskólann. Síðustu ár hafa um 1500 nemendur hafið nám að hausti, en gert er ráð fyrir að þeir verði mun fleiri í ár. Enn er opið fyrir umsóknir um undirbúning fyrir háskólanám í Háskólagrunni HR.

Umsóknum um meistaranám fjölgar í öllum deildum háskólans, um þriðjung að jafnaði. Innlendum umsóknum um grunnnám fjölgar um 14% milli ára. Mest er fjölgun í umsóknum um grunnnám, annað árið í röð, í iðn- og tæknifræðideild, eða 34%, en háskólinn hefur undanfarin tvö ár lagt áherslu á að kynna möguleika iðnlærðra á háskólanámi í samstarfi við stjórnvöld og Samtök iðnaðarins. Einnig fjölgar umsóknum um grunnnám í sálfræðideild verulega eða um 34%. Flestar umsóknir bárust um grunnnám í tölvunarfræðideild eða ríflega 460.