Fréttir eftir árum


Fréttir

Upplýsingalíkön eru framtíðin í mannvirkjagerð

28.2.2020

Kennsla mun hefjast á nýrri námsbraut við iðn- og tæknifræðideild Háskólans í Reykjavík í haust. Um er að ræða eins árs hagnýtt diplómanám sem ætlað er að veita nemendum hagnýta þekkingu á sviði upplýsingatækni í mannvirkjagerð.

Námið heitir Upplýsingatækni í mannvirkjagerð og er sérstaklega ætlað þeim sem starfa í byggingariðnaði og við mannvirkjagerð eins og byggingarstjóra, byggingariðnfræðinga, tæknifræðinga, verkfræðinga, arkitekta og byggingafræðinga. Í náminu öðlast nemendur reynslu, þekkingu og færni í að leysa flókin og þverfagleg vandamál í mannvirkjagerð og stjórna verkefnum með upplýsingalíkönum.

Kona stendur í stigaHera Grímsdóttir, forseti iðn- og tæknifræðideildar.

Hvað eru upplýsingalíkön?

Notkun stafrænna þrívíðra upplýsingalíkana, eða BIM (Building Information Modeling), er aðferðafræði við hönnun mannvirkja sem hefur verið að að ryðja sér til rúms hér á landi. Upplýsingalíkön í mannvirkjagerð auka gæði hönnunar og framkvæmda og stuðla að hagkvæmari byggingum. Þá nýtast upplýsingalíkön við rekstur mannvirkja á líftíma þeirra.

„Iðn- og tæknifræðideild HR leitast við að vera í góðum tengslum við atvinnulífið og bregðast við þörfum þess hverju sinni. Stofnun þessarar nýju brautar er einn liður í því,“ segir Hera Grímsdóttir, forseti iðn- og tæknifræðideildar HR. Að hennar sögn hefur atvinnulífið verið að kalla eftir starfsfólki með þekkingu á upplýsingatækni í mannvirkjagerð. „Stefnt er að því að innan fárra ára verði það meginregla að nota upplýsingalíkön við byggingu allra stærri opinberra mannvirkja á Íslandi,“ segir hún.

Starfsmenn í byggingariðnaði horfa á spjaldtölvu

Umsækjendur þurfa að hafa lokið burtfararprófi í iðngrein á byggingarsviði, stúdentsprófi eða lokaprófi úr Háskólagrunni HR.

Kynningar á námsbrautinni

Nýja námsbrautin verður meðal fjölbreyttra námsbrauta sem háskólinn kynnir á Háskóladaginn á morgun, 29. febrúar, kl. 12-16. Iðn- og tæknifræðideild mun einnig kynna fjölbreyttar námsleiðir fyrir iðnmenntaða á sýningunni Verk og vit í Laugardalshöll 12.-15. mars næstkomandi.