Fréttir eftir árum


Fréttir

Upplýsingar vegna COVID-19

6.3.2020

Í viðbragðsáætlun Háskólans Í Reykjavík vegna COVID-19, sem er í stöðugri endurskoðun, er meðal annars fjallað um viðbrögð sem tengjast námi og kennslu, ferðalögum, samskiptum, viðburðum og fleiru. Stjórnendur háskólans eiga reglulega fundi vegna faraldursins þar sem farið er yfir stöðuna og farið yfir áætlanir.

Mynd af sprittstandi og leiðbeiningum í HR vegna Kovit 19Háskólinn fylgir í einu og öllu leiðbeiningum og fyrirmælum yfirvalda varðandi COVID-19. Nýjustu upplýsingar og leiðbeiningar á hverjum tíma er ávallt að finna á vef Landlæknis og nemendur og starfsmenn eru hvattir til að kynna sér þær vandlega: www.landlaeknir.is/

Sótthreinsunarspritt er nú aðgengilegt á öllum salernum í HR, við lyftur og víðar og veggspjöld frá Landspítalanum sem sýna helstu leiðir til að koma í veg fyrir smit hafa verið hengd upp. Jafnframt hafa þrif verið aukin á snertiflötum á borð við lyftuhnappa, handrið, borð o.s.frv. og spritt er nú í öllum hreinsilög sem notaður er til þrifa í háskólanum. 

Starfsfólk háskólans ferðast ekki til hættusvæða á vegum háskólans og háskólinn tekur ekki á móti gestum frá þeim svæðum. Þeim tilmælum hefur verið beint til starfsfólks að ferðast ekki að óþörfu. Heilbrigðisyfirvöld hafa beðið þá starfsmenn og nemendur sem eru nýkomnir frá skilgreindum áhættusvæðum, að fara í heimasóttkví í tvær vikur. 

Nemendur sem þurfa að halda sig frá HR vegna fyrirmæla heilbrigðisyfirvalda fá allan þann sveigjanleika sem háskólinn getur veitt þeim varðandi námið. Nemendur sem eru í þessari stöðu ættu að setja sig í samband skrifstofu sinnar deildar. Námsráðgjöf getur veitt þeim nemendum sem eru í sóttkví námsaðstoð. Hægt er að panta fjarfundi á síðunni ru.is/radgjof/