Fréttir eftir árum


Fréttir

Útskrift úr Háskólagrunni

Háskólinn í Reykjavík brautskráði 47 nemendur úr Háskólagrunni síðastliðinn föstudag.

13.6.2022

Háskólinn í Reykjavík brautskráði 47 nemendur úr Háskólagrunni síðastliðinn föstudag. Flestir nemendur voru í tækni- og verkfræðigrunni eða 18 nemendur. 15 nemendur luku prófi úr viðskiptafræðigrunni, tíu úr tölvunarfræðigrunni og fjórir úr lögfræðigrunni. Auk þess voru skráðir tæplega 50 nemendur í viðbótarnám við stúdentspróf við deildina á liðnu skólaári.

Útskriftarnemendur Háskólagrunns standa í tröppum.Hæstu einkunn á lokaprófi Háskólagrunns hlaut Kjartan Elvar Baldvinsson og hlaut hann viðurkenningu frá Samtökum iðnarins. Nokkrir aðrir fengu viðurkenningu fyrir góðan árangur í einstökum greinum.
Við athöfnina flutti Styrmir Árnason ræðu fyrir hönd útskriftarnema og ræðumaður eldri útskrifaðra nemenda var Pétur Arason, stofnandi Manino. Una Torfadóttir flutti tónlistaratriði við góðar undirtektir og þær Anna Sigríður Bragadóttir, forstöðukona Háskólagrunns og Ragnhildur Helgadóttir rektor fluttu einnig ræður.

Þetta var 83. brautskráning frá Háskólagrunni HR og samtals hefur nú 2431 lokið prófi frá deildinni. Háskólagrunnur HR byggir á traustum stoðum, hefur starfað undir formerkjum frumgreinadeildar í tæplega 60 ár. Námið var nýjung í íslensku skólakerfi á sínum tíma, byggði á danskri fyrirmynd og var ætlað að vera brú milli iðnmenntunar og háskólanáms. Margt hefur þó breyst í starfi deildarinnar á þessum árum, bæði hvað varðar námið sjálft og aðferðir við miðlun þess.