Fréttir eftir árum


Fréttir

Vegna afléttingar takmarkana 4. maí

17.4.2020

Í minnisblaði sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra um afléttingu takmarkana á samkomum vegna COVID-19 kemur fram að háskólar megi að hluta til opna húsnæði sitt 4. maí næstkomandi, en með takmörkunum. 

Meginmarkmið Háskólans í Reykjavík verður sem fyrr að tryggja öryggi og heilsu nemenda og starfsmanna háskólans, m.a. með því að fara að fullu að tilmælum stjórnvalda. Fyrirkomulagi kennslu í HR verður ekki breytt frá því sem hefur verið undanfarnar vikur. Prófum og þriggja vikna námskeiðum verður almennt lokið á þann hátt sem þegar hefur verið ákveðið.

Á næstu dögum verða gerðar áætlanir, í samráði við stjórnvöld, um það hvernig aðgengi er hægt að veita nemendum og starfsmönnum að húsnæði háskólans, hvernig takmörkunum verður háttað og hvernig aðgangi verður forgangsraðað. Samkvæmt reglum stjórnvalda skal miða við að hópar verði ekki stærri en 50 einstaklingar og að tveggja metra fjarlægð sé haldið milli einstaklinga. Þá er sérstaklega tekið fram að, að öðru leyti skuli skólastarfi í háskólum lokið með þeim takmörkunum sem nú gilda. Starfsfólk verður eftir sem áður hvatt til að vinna eins mikið heima og kostur. 

Starfsfólk og nemendur HR hafa staðið sig frábærlega í því ástandi sem COVID-19 hefur skapað og það markmið að klára önnina er í stórum dráttum að nást. Það verður gott að geta tekið skref í átt að venjulegu ástandi upp úr næstu mánaðarmótum en munum að halda áfram að fara varlega til að tryggja áframhaldandi góðan árangur.