Fréttir eftir árum


Fréttir

„Verð hvorki bílveik né sjóveik sjálf!“

17.2.2021

Nemendahópur á lokaári sínu í BSc-námi í heilbrigðisverkfræði náði þeim fágæta árangri að fá vísindagrein um rannsókn sína birta í rannsóknartímaritinu Frontiers in Bioengineering and Biotechnology. Það er sjaldgæft að nemendur í grunnnámi nái slíkum árangri í rannsóknum.

„Ég vissi nánast ekkert um hreyfiveiki þar sem ég verð hvorki bílveik né sjóveik sjálf! Hins vegar hef ég núna fengið að kynnast öllum skalanum eftir að hafa séð svona marga taka þátt í rannsókninni okkar. Það hefur líka verið mjög forvitnilegt að vinna með gögnin og sjá hvað gerist í raun í líkama okkar þegar fólk finnur fyrir hreyfiveiki," segir Valdís Bæringsdóttir, ein nemendanna sem eru skrifaðir meðhöfundar fyrir greininni. Þau nutu tryggrar leiðsagnar dr. Paolo Gargiulo, prófessors í heilbrigðisverkfræði. 

Hópur nemenda stendur í Sólinni

Nemendurnir sem voru í námskeiðinu Mælitækni og lífsmörk og söfnuðu gögnum sem munu liklega nýtast í framtíðinni við þróun á meðferð við hreyfiveiki. Meðhöfundar að greininni eru fremst á myndinni, frá vinstri: Deborah Jacob, Marco Recenti, Sólveig Agnarsdóttir, Romain Aubonnet, Gunnar Hákon Karlsson og Valdís Bæringsdóttir. 

Rannsaka hreyfiveiki með sýndarveruleika

Þannig lögðu nemendurnir lóð sitt á vogarskálarnar í viðamiklu rannsóknarverkefni sem metur líffræðilega þætti hreyfiveiki. Markmiðið er að auka skilning á orsökum hennar sem þar af leiðandi kann að gera okkur kleift í náinni framtíð að draga úr einkennum hreyfiveiki. 

„Við vorum í raun fyrstu þátttakendur í fyrstu prótótýpu rannsóknarinnar. Ég hélt svo áfram að vinna við hana með Halldóri og Sólveigu sumarið eftir og fengum við Rannís styrk til þess. Sumarið fór nokkuð jafnt í að koma upp samstilltu kerfi mælitækja fyrir rannsóknina og að taka á móti fyrstu 110 þátttakendunum,“ segir Valdís. 

Rannsóknin fór fram í gegnum sýndarveruleika á palli sem hreyfist og líkir eftir öldum sem þátttakendur sjá í sýndarveruleikagleraugum. Hægt er að líkja eftir aðstæðum á sjó, við akstur, flug og fleira. Á meðan þátttakendur upplifðu ölduhreyfingarnar voru gerðar mælingar á viðbrögðum með heilalínuriti, mælingu á hjartsláttartíðni, vöðvariti, mælingu á súrefnismettun og líkamsstöðu. Valdís segir mælingarnar sjálfar hafa verið spennandi: „Já, mér fannst gaman að fá að kynnast öllum líffræðilegu mælitækjunum sem við notum í rannsókninni, hvernig þau virka og hvernig unnið er með gögnin sem fást úr þeim.“ Þátttakendur svöruðu einnig stuttum spurningalistum um heilsufar sitt og næmni fyrir hreyfiveiki. 

Viðamikið rannsóknaverkefni þriggja háskóla

Þessi nýi hátæknibúnaður til rannsókna á sjóveiki og annarri hreyfiveiki var tekinn í notkun fyrir ári síðan í aðalrými Háskólans í Reykjavík, Sólinni. Uppbygging á aðstöðunni er samstarfsverkefni Heilbrigðistækniseturs Háskólans í Reykjavík, Lífvísindaseturs Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Þetta er fyrsta vísindagreinin sem birtist um niðurstöður rannsókna sem þar fara fram. Sjálf útskrifaðist Valdís með BSc í heilbrigðisverkfræði síðasta vor og mun útskrifast núna í vor með BSc í tölvunarfræði. Hún stefnir í meira nám þar sem hún getur blandað saman þessum tveimur greinum.  

Greinin heitir:  Towards predicting Motion Sickness using Virtual Reality and a Moving Platform Assessing Brain, Muscles, and Heart signals  og er í tímaritinu Frontiers in Bioengineering and Biotechnology, í hlutanum: Biomechanics.

Höfundar greinarinnar eru: Marco Recenti, Carlo Ricciardi, Romain Aubonnet, Ilaria Picone, Deborah Jacob, Halldór Ásgeir Risten Svansson, Sólveig Agnarsdóttir, Gunnar Hákon Karlsson, Valdis Baeringsdóttir, Hannes Petersen, Paolo Gargiulo .