Fréttir eftir árum


Fréttir

Verðlaun Háskólans í Reykjavík afhent

7.4.2018

Verðlaun Háskólans í Reykjavík voru afhent í gær, föstudag. Verðlaunin hafa verið veitt árlega síðan árið 2010 þeim starfsmönnum háskólans sem þykja hafa skarað fram úr í rannsóknum, kennslu og þjónustu. Að þessu sinni hlaut Heiðdís B. Valdimarsdóttir rannsóknarverðlaun HR, Axel Hall kennsluverðlaun og Ragna Björk Kristjánsdóttir þjónustuverðlaun.

Hópur fólks stendur með blómvendiFrá vinstri: Ragna Björk Kristjánsdóttir, Heiðdís B. Valdimarsdóttir, Axel Hall og Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.
Starfsmenn og nemendur Háskólans í Reykjavík tilnefna einstaklinga til verðlaunanna en val á verðlaunahöfum er í höndum dómnefndar sem styðst við upplýsingar sem fylgja tilnefningum sem og upplýsingar um kennsluferil, kennslumat, rannsóknarmat, ferilskrá og margt fleira.

Rannsóknarverðlaun HR

Rannsóknarverðlaun Háskólans í Reykjavík hlaut Heiðdís B. Valdimarsdóttir, prófessor við sálfræðisvið viðskiptadeildar HR. Við veitingu rannsóknaverðlauna er horft til fjölda þátta eins og birtinga á ritrýndum vettvangi, öflun styrkja, framlags til alþjóðlegs vísindasamfélags, þjálfun nemenda í rannsóknum og tengingu rannsókna við atvinnulíf og samfélag. Heiðdís var ein af fjórum íslenskum vísindamönnum sem fékk öndvegisstyrk hjá Rannsóknasjóði fyrir árið 2018 vegna rannsóknar sinnar á áhrifum hvítaljóssmeðferðar á krabbameinstengda þreytu hjá konum með brjóstakrabbamein. Í umsögn dómnefndar kemur fram að Heiðdís sé einn af fremstu vísindamönnum heims á sínu sviði og eigi í umfangsmiklu alþjóðlegu samstarfi, meðal annars við Mount Sinai-sjúkrahúsið í New York. Hún er afkastamikill fræðimaður og hefur verið gefin hæsta einkunn í rannsóknamati allan sinn starfsferil við HR. Hún hefur einnig verið drífandi í því að fá nemendur inn í rannsóknarverkefni og tengja þau verkefni við þarfir samfélagsins.

Kennsluverðlaun HR

Kennsluverðlaun Háskólans í Reykjavík hlaut Axel Hall, lektor við viðskiptadeild. Við veitingu kennsluverðlauna er horft til meðal annars nýsköpunar í skipulagi og hönnun námskeiða, þróun nýrra námskeiða, notkun fjölbreytts námsmats, notkun upplýsingatækni, skipulags, tengsla við nemendur, gerðar kennsluefnis og margs fleira. Í umsögn dómnefndar segir að Axel hafi orð á sér fyrir framúrskarandi skipulag auk þess að vera framsækinn kennari. Hann veiti nemendum sínum dyggan og góðan stuðning, en sé um leið mjög metnaðarfullur. Hann hefur oft verið nefndur sem fyrirmynd annarra kennara við HR og hafi því fengið það hlutverk að hitta nýja kennara á hverri önn til að gefa góð ráð. Axel hafi jafnframt verið áhugasamur um að nýta sér tækninýjungar í starfi, meðal annars í nýju kennslukerfi HR.  

Þjónustuverðlaun HR

Þjónustuverðlaun Háskólans í Reykjavík hlaut Ragna Björk Kristjánsdóttir, upplýsingafræðingur á bókasafni HR. Við ákvörðun um úthlutun þjónustuverðlauna er horft til gæða þjónustu, skjótra viðbragða, góðs viðmóts, frumkvæðis, tengsla við starfsmenn og nemendur, samstarfs við önnur svið HR ásamt þekkingar og færni á fagsviði. Í umsögn dómnefndar segir að Ragna Björk hafi sinnt þjónustu við nemendur og starfsfólk HR af gleði og vandvirkni. Hún sé þekkt innan veggja HR fyrir mikla og góða sérfræðiþekkingu, jákvætt viðmót og hjálpsemi. Ragna vinni í einingu sem gegni lykilhlutverki í bæði námi og rannsóknum í HR, enda fátt mikilvægara en að veita greiðan aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem á þurfi að halda, sem og að aðstoða við meðferð slíkra gagna.