Fréttir eftir árum


Fréttir

Verðlaun HR afhent í Sólinni

6.4.2016

Verðlaun veitt í þremur flokkum

Á hverju ári verðlaunar Háskólinn í Reykjavík starfsmenn fyrir góðan árangur í starfi. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum: kennsluverðlaun, þjónustuverðlaun og rannsóknaverðlaun og eru veitt þeim starfsmönnum sem þykja hafa skarað fram úr í þróunarstarfi, rannsóknum, kennslu og þjónustu.

Frá vinstri: Ari Kristinn Jónsson, rektor, Harpa Lind Guðbrandsdóttir, Ingunn Gunnarsdóttir og Halldór Svavarsson, sem tók við verðlaununum fyrir hönd Andrei Manolescu.  

Þjónustuverðlaun  

Handhafi þjónustuverðlauna árið 2016 er Harpa Lind Guðbrandsdóttir, ritari nemendabókhalds á kennslusviði. Það eru nemendur HR sem útnefna starfsmenn til verðlaunanna. Harpa Lind er þekkt meðal nemenda fyrir að svara óskum hratt og örugglega og talin af sínu samstarfsfólki einstaklega þolinmóð og nákvæm. 

Kennsluverðlaun

Kennsluverðlaunin í ár hlýtur Ingunn Gunnarsdóttir, kennari í stærðfræði. Við val á handhafa kennsluverðlauna er meðal annars litið til niðurstöðu kennslumats og fleiri þátta en auk þess senda nemendur inn tilnefningar. Í umsögn um Ingunni segir að hún njóti einstaklega góðs orðstírs meðal nemenda, hún hafi mikinn metnað fyrir góðri kennslu og geri jafnframt miklar kröfur. Skil á verkefnum og prófum séu til fyrirmyndar og að hún nái frábæru sambandi við nemendur í kennslu. Þá hafi hún notað upplýsingatækni í kennslu með nýstárlegum og góðum hætti.

Rannsóknarverðlaun 

Andrei Manolescu hlýtur rannsóknarverðlaun HR árið 2016. Andrei er prófessor við tækni- og verkfræðideild og snúast rannsóknir hans um nanótækni, meðal annars. Tilnefningar til rannsóknarverðlauna eru byggðar á birtingum á ritrýndum vettvangi, tengingu rannsókna við atvinnulíf og samfélag, þátttöku í uppbyggingu rannsóknarsetra og fleiri þáttum. Andrei er mjög reyndur fræðimaður og eftir hann liggur stórt safn birtinga. Í hann hefur verið vitnað yfir 14 þúsund sinnum, samkvæmt Google Scholar. Hann hefur leiðbeint doktorsnemum, hlotið styrki úr samkeppnissjóðum og unnið með fjölda vísindamlanna hér á landi og erlendis. 

Andrei er staddur þessa dagana við West Virginia háskóla í Bandaríkjunum þar sem hann stundar rannsóknir og gat því ekki verið viðstaddur verðlaunaafhendinguna. Halldór Svavarsson, formaður rannsóknarráðs tækni- og verkfræðideildar, tók við verðlaununum fyrir hans hönd.


Verðlaun Háskólans í Reykjavík hafa verið veitt frá árinu 2010 og því hafa nú alls 21 starfsmaður háskólans hlotið viðurkenningu fyrir störf sín.