Fréttir eftir árum


Fréttir

Verkefni um endurnýtingu blóðflögueininga hlýtur verðlaun

27.11.2014

Ólafur Eysteinn SigurjónssonÓlafur Eysteinn Sigurjónsson er dósent við tækni- og verkfræðideild HR ásamt því að vera klínískur lektor við Háskóla Íslands og forstöðumaður rannsókna við Blóðbankann. Ólafi, ásamt doktorsnemanum Söndru Mjöll Jónsdóttur Buch og samstarfsfólki, voru veitt verðlaun og viðurkenning fyrir verkefnið „Þróun og notkun á blóðflögulýsötum og frostþurrkuðum blóðflögulýsötum úr útrunnum örveruóvirkjuðum blóðflögum til ræktunar á miðlagsstofnfrumum“, þegar Hagnýtingarverðlaun HÍ árið 2014 voru afhent þann 20. nóvember sl.

Ólafur stundar rannsóknir í heilbrigðisverkfræði og þróar meðal annars aðferðir til klínískrar ræktunar og sérhæfingar á stofnfrumum. Hann greindi frá tilurð og tilgangi þessara rannsókna í Tímariti HR sem kom út á þessu ári. Þar segir hann hugmyndina snúast um að skapa verðmæti úr efnivið sem vanalega sé fargað.

Mikill áhugi er á þróun öruggra stofnfrumumeðferða til notkunar í vefjaverkfræði og vefjalækningum. Til að slíkt verði mögulegt er mikilvægt að þróa vel skilgreindar aðferðir til fjölgunar og sérhæfingar á stofnfrumum sem nota á í þessum tilgangi.

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands eru samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Tæknigarðs, Árnason|Faktor og Einkaleyfastofunnar sem leggja til verðlaunafé auk þátttöku í dómnefnd.

Lesa frétt á vef HÍ um Hagnýtingarverðlaunin 2014

Lesa viðtal við Ólaf í Tímariti HR 2014