Fréttir eftir árum


Fréttir

Verkefnin snerust meðal annars um byssuskot, hlaupapróf og sms-sendingar

Grímur Gunnarsson sálfræðingur glímdi við margskonar verkefni í námi sínu í Háskólanum í Reykjavík

31.5.2022

Grímur Gunnarsson er sálfræðingur frá Hólmavík sem hefur mörg járn í eldinum. Hann útskrifaðist úr meistaranámi í klínískri sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík í fyrra og starfar nú sem sálfræðingur hjá Knattspyrnusambandi Íslands, Fangelsismálastofnun Ríkisins, og á Domus Mentis Geðheilsustöð.
Maður stendur með krosslagðar hendur undir þaki áhorfendastúku á knattspyrnuvelli í Laugardal.

Mér líður vel í því sem ég er að gera núna, er með fjölbreytt og krefjandi verkefni. Ég er ánægður með aukna áherslu á sálfræðivinnu í íþróttastarfi á Íslandi og ég mun líklegast laðast áfram að þannig verkefnum í framtíðinni.


Grímur er einnig að vinna að Erasmus verkefni ásamt fríðu föruneyti sem snýst um að kenna íþróttaiðkendum lífsfærni í gegnum íþróttina sína.

Í náminu í HR tókst mér oftast að gera eitthvað tengt íþróttasálfræði. BSc verkefnið mitt var að láta þátttakendur keyra í bílhermi og mæla viðbragðstíma þeirra á meðan þeir gerðu hinar ýmsar aðgerðir í símanum sínum, s.s. skrolla, senda sms og senda Snap. Í Lundi, þar sem ég var í meistaranámi í hugrænni sálfræði var meistaraverkefnið mitt að skoða augnhreyfingar og viðbragðstíma lögreglumanna þegar þeir voru að skjóta úr byssu undir álagi. Lokaverkefnið mitt í klíníkinni var að leggja fyrir spurningalista um ýmsa þætti tengda íþróttasálfræði fyrir alla 16 ára knattspyrnuiðkendur landsins yfir tvö ár og bar saman þær niðurstöður við frammistöðu þeirra á YoYo hlaupaprófi.


Nám í sálfræði er fyrir þá sem vilja skilja hugsun, hegðun og tilfinningar fólks. Það hentar þeim sem hafa áhuga á því hvernig má hafa áhrif á hegðun einstaklinga og hópa, langar að bæta velferð og heilsu fólks og vilja stunda sálfræðilegar tilraunir og rannsóknir. Umsóknarfrestur um nám í sálfræði í HR er til 5. júní. 

Kynntu þér nám í sálfræði.