Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

„Við þurftum að vera fljót að hugsa“

16.3.2018

Þau Andrea Björnsdóttir, Guðmundur Oddur Eiríksson, Ástgeir Ólafsson, Kjartan Þórisson og Sigurður Davíð Stefánsson voru fulltrúar HR í Rotman viðskiptakeppninni (Rotman International Trading Competition) sem var haldin í lok  febrúar í Toronto í Kanada. Keppnin er haldin árlega og í henni etja kappi háskólanemar frá öllum heimshornum.

Nokkrir nemendur stilla sér upp fyrir myndatökuLiðið sem keppti fyrir hönd HR í Rotman International Trading Competition. Frá vinstri: Ástgeir Ólafsson, Kjartan Þórisson, Andrea Björnsdóttir, Guðmundur Oddur Eiríksson og Sigurður Davíð Stefánsson.

Annað lið af tveimur skipað grunnnemum

Andrea, Ástgeir og Guðmundur Oddur eru nemendur í BSc-námi í viðskiptafræði en Kjartan og Sigurður Davíð eru BSc-nemendur í rekstrarverkfræði. Andrea útskýrir af hverju mikilvægt var að hafa bæði nema úr viðskiptafræði og verkfræði í liðinu. „Fyrirfram fengum við að vita þau „case“ sem við myndum þurfa að ráða fram úr í keppninni. Margt af þessu vissum við að yrði auðveldara að leysa með því að forrita lausnir og því var mikilvægt að hafa liðsmenn með forritunarkunnáttu. Reyndar var mjög mikið um nemendur úr fjármálaverkfræði og fjármálastærðfræði og fleiri fögum og mörg liðin voru jafnvel búin að hanna forrit sem bara leysti verkefnin fyrir þau. Við skárum okkur ekki aðeins úr með því að vera flest úr viðskiptafræði, heldur erum við öll líka grunnnemar. Meistaranemar voru í miklum meirihluta og jafnvel doktorsnemar.“

Gott að vera fljótur að hugsa

Í keppninni leystu liðin sex þrautir. „Við fengum að vita fyrirfram ákveðnar aðstæður sem svo breyttust meðan á þrautinni stóð og við þurftum að leysa úr vandamálum sem komu upp og reyna að skila sem mestum hagnaði. Þrautirnar snerust meðal annars um takast á við áhættu, stunda olíuviðskipti, kaup og sölu á ríkisskuldabréfum og fyrirtækjabréfum og sjóðaviðskipti.“ Til dæmis fengu liðin fréttir um að spáð væri minna atvinnuleysi í Kanada sem þá hafði áhrif á kaup á ríkisskuldabréfum þar í landi og svo framvegis. „Við vorum að bregðast við þessum sýndaraðstæðum í hverri þraut í tvo daga. Við þurftum að vera fljót að hugsa ef við áttum að eiga séns á að mynda hagnað. Þegar maður er undir svona mikilli pressu þarf maður oft að nota innsæið. Svo treystum við á reynsluna og það sem við höfum lært í BSc-náminu hingað til.“

Karllægur heimur

Einn liður keppninnar var það sem nefnt er „outcry“, sem mætti einfaldlega þýða sem „kall“. Fyrirbærið er ekki þekkt hér á landi en margir kannast við það úr fréttamyndum frá Wall Street og öðrum alþjóðlegum verðbréfahöllum þar sem miðlarar hrópa og kalla hver ofan í annan, oftar en ekki með miklu handapati. Í kallinu kepptu fjórir liðsmenn og unnu Guðmundur og Andrea saman á gólfinu. „Ég var ein af örfáum stelpum þarna og við enduðum í fimmta sæti. Þetta var mjög mikið kaos og maður þarf að vera ákveðinn og eiga auðvelt með að taka ákvarðanir. Það er sorglegt hversu karllægur heimur þetta er þó það sé að einhverju leyti skiljanlegt að stelpur sækist ekki í þetta. Ég sjálf lenti tvisvar í því að karlkyns keppendur reyndu að fá mig til að gefa eitthvað eftir, þeim í hag, gegn því að þeir myndu kyssa mig. Þetta er auðvitað eitthvað sem ætti ekki að fá að líðast. Ég gat ekki tilkynnt þetta á meðan á keppninni stóð en gerði það eftir á með hjálp strákanna. Þeir voru jafn hissa á þessu og ég.“ Að kallkeppninni lokinni kom ein fyrsta konan sem starfaði við slík viðskipti í Kanada, og starfar núna hjá Royal Bank of Canada, til Andreu og óskaði henni til hamingju með árangurinn. „Hún var mjög áhugasöm um að gefa mér tækifæri og ég fann að það var ekki innantómt. Það er oft talað um að svona keppnir veiti tækifæri og það er virkilega þannig, ég mun áreiðanlega hafa samband við hana síðar meir.“

Reynslan mikilvæg

„Að koma inn í svona stórt dæmi er ótrúlega spennandi, maður þekkir ekkert svona á Íslandi. Árangurinn var betri en við höfðum þorað að vona,“ segir Andrea, „miðað við að sömu háskólarnir sigra yfirleitt í þessari keppni og mæta til leiks mjög vel undirbúnir. Þrautirnar eru svipaðar ár frá ári þannig að það er virkilega hægt að nýta þekkinguna frá fyrri árum. Svo var þetta bara ótrúlega gaman, eiginlega skemmtilegra en ég hafði ímyndað mér fyrirfram.“

Á vef keppninnar má lesa meira um hana og sjá myndband:

http://ritc.rotman.utoronto.ca/