Fréttir eftir árum


Fréttir

„Námsframboðið þarf að vera í sífelldri þróun“

14.9.2020

Vinnuumhverfi okkar og viðfangsefni starfanna er síbreytilegt enda á sér stað stafræn bylting vinnumarkaðarins, oft nefnd fjórða iðnbyltingin.

Hvað mun breytast? Hvað verður alfarið stafrænt? Hverju verður gert hærra undir höfði? Hversu ofarlega á baugi verða umhverfismál? Ásdís Erla Jónsdóttir er forstöðumaður Opna háskólans í HR. Hún rýnir í framtíð starfa á hverjum degi og fylgist vel með enda er það hlutverk skólans, í samvinnu við akademískar deildir HR og atvinnulífið, að gera starfsfólk fyrirtækja og stofnana tilbúið að laga sína starf­ semi að þróuninni og um leið að auka samkeppnishæfni landsins.

Kona stendur við handrið í HR

Hvaða nýja svið finnst þér mest spennandi?

„Ég hef alltaf áhuga á því sem snýr að manneskjunni. Mikið af okkar námskeiðum snúast um mannlega eiginleika, til dæmis, hvernig færðu fólk til að vinna saman sem ein heild og nýta og koma auga á sína styrkleika? Svo hefur verið áhugavert að fylgjast með hraðri þróun stafræns náms. Allt stafrænt nám er komið til að vera þó að það komi ekki í staðinn fyrir hefðbundið nám. Fyrirtæki eru að nýta sér tæknina til að koma efni til starfsfólks, þarna getum við leikið lykilhlutverk, að skapa efni og tengja sérfræðinga saman.“

Hvernig veljið þið námskeið?

„Opni háskólinn þarf að vera í stöðugu samtali við atvinnulífið og akademíuna og fylgjast með nýjustu straumum og stefnum innanlands og utan. Við leitum til okkar sérfræðinga og fáum einnig mikið af fólki sem þyrstir í að miðla og leitar því til okkar með góðar hugmyndir. Við njótum góðs af því að vera hluti af háskóla þar sem lögð er áhersla á rannsóknir og hagnýtingu þeirra og blöndum svo inn atvinnulífinu. Við nýtum okkur einnig alþjóðlegar rannsóknir frá World Economic Forum, þar sem fjórða iðnbyltingin er krafin til mergjar og fjallað er um framtíð starfa út frá áreiðanlegum gögnum.“

Hvernig er best að búa sig undir vinnumarkað framtíðarinnar?

„Það þarf að undirbúa starfsfólk vinnustaða fyrir áhrifin af tækni­ breytingum og sjálfvirknivæðingu. Í framtíðinni verða til ný störf sem við þekkjum ekki ennþá. Því þarf að efla aðlögunarfærni starfsfólks og stjórnenda. Þannig þjónum við lykilhlutverki í að styðja einstaklinga og fyrirtæki í að bæta færni sína og auka þekkingu til að ná markmiðum og stuðla að nýsköpun og samkeppnishæfni. Við sjáum það alltaf betur og betur að við þurfum kvika hugsun og við þurfum að fóstra nýsköpun jafnt innan rótgrónna fyrirtækja og stofnana, sem og meðal frumkvöðla.“