Fréttir eftir árum


Fréttir

„Við þurfum að læra að lifa með veirunni“

23.8.2021

Þórhildur Halldórsdóttir„Sumir af þessum þáttum sem ungmenni bentu helst á í tengslum við andlega vanlíðan er hægt að vinna með til að stuðla að andlegri vellíðan óháð gildandi takmörkunum.“ 

Þórhildur Halldórsdóttir, barnasálfræðingur og lektor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík er fyrsti höfundur greinar sem birtist fyrir stuttu í vísindaritinu CPP Advances.

Rannsóknarhópur innan sálfræðideildar Háskólans í Reykjavík og Rannsóknar og greiningar (R&G), hefur fylgst markvisst með líðan ungmenna á tímum COVID-19. Nýjustu niðurstöðurnar, sem byggja á svörum allra 13-18 ára ungmenna á landsvísu, sýna að vanlíðan hjá ungmennum hefur aukist, þá sérstaklega á meðal stúlkna. 

Meðal meðhöfunda greinarinnar ásamt Þórhildi eru Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor og framkvæmdastjóri vísinda hjá Rannsóknum og greiningu og Ingibjörg Eva Þórisdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu 

„Þar sem það var óljóst hversu lengi COVID-19 myndi herja á heimsbyggðina fannst okkur mikilvægt að kanna hvað það er við faraldurinn sem tengist vanlíðan. Þá væri mögulega hægt að þróa úrræði til að sporna við henni,“ segir Inga Dóra.

 

Breytingar á daglegri rútínu erfiðar

Niðurstöðurnar benda til þess að margir samverkandi þættir tengdir COVID-19 hafi haft slæm áhrif á líðan bæði drengja og stúlkna. Þar má einna helst nefna breytingar á daglegri rútínu og skólastarfi, að hitta ekki vini í eigin persónu og að eyða löngum stundum heima fyrir. 

Áhyggjur af því að fólk smitist af veirunni og að veikjast sjálf voru einnig meðal þátta sem höfðu slæm áhrif á líðan ungmenna. Í samræmi við fyrri niðurstöður fannst stúlkum faraldurinn hafa víðtækari og verri áhrif á líf sitt en drengir.

Óvirk samfélagsmiðlanotkun og meiri tölvuleikjaspilun

Ungmennin voru einnig spurð hvort einhverjar breytingar í hegðun þeirra hafði átt sér stað með tilkomu faraldursins og í framhaldinu var kannað hvort þessar hegðunarbreytingar tengdust vanlíðan. 

„Hér kom fram kynjamunur þar sem minni samskipti við fjölskyldu í gegnum snjalltæki og aukning á óvirkri samfélagsmiðlanotkun tengdist vanlíðan hjá stúlkum. 

Óvirk samfélagsmiðlanotkun felst í því að vera áhorfandi frekar en virkur þátttakandi í miðlinum. Hjá drengjum var það hins vegar meiri tími í að spila tölvuleiki einir á netinu og minni svefn sem tengdist vanlíðan,“ útskýrir Ingibjörg Eva.

 

  

Hægt að vinna með ákveðna þætti 

Þórhildur segir stöðuna í þjóðfélaginu kalla á að við lærum að lifa með veirunni og getum brugðist við hvers konar takmörkunum sem kunna að verða innleiddar, hvort sem það sé í formi sóttkvíar eða samkomutakmarkana. „Það var ánægjulegt að sjá að sumir af þessum þáttum sem ungmenni bentu helst á í tengslum við andlega vanlíðan er hægt að vinna með til að stuðla að andlegri vellíðan óháð gildandi takmörkunum:

Það er til dæmis hægt að hvetja til og aðstoða ungmenni við að halda svipaðri daglegri rútínu, eins og að vakna á svipuðum tíma, að tannbursta sig og klæða sig í föt, hvort sem þau eru í staðnámi eða fjarnámi. Það er líka hægt að hvetja stúlkur sérstaklega til að þess að taka virkan þátt í samskiptum á netinu og drengi til að spila tölvuleiki á netinu með öðrum í von um að það bæti líðan ungmenna.

Aðrir meðhöfundar að greininni eru Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, prófessor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík, Heiðdís Björk Valdimarsdóttir, prófessor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík og Icahn School of Medicine við Mount Sinai, Álfgeir Logi Kristjánsson, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu og dósent við lýðheilsudeild West Virginia University, Caine Meyers, aðstoðarmaður í rannsóknum hjá Rannsóknum og greiningu og John Allegrante, prófessor í lýðheilsu við Teachers College í Columbia University.  

Hluti af LIFECOURSE rannsóknarverkefninu 

LIFECOURSE rannsóknarteymið vill að lokum sérstaklega þakka öllum ungmennum og fjölskyldum þeirra sem tóku sér tíma til að taka þátt í rannsókninni. Teymið mun halda áfram meta líðan ungmenna og næsta fyrirlögn spurningalista er nú í haust. 

Öll ungmenni fædd 2004 og fjölskyldur þeirra eru hvött til að kynna sér rannsóknina á: 

 

LIFECOURSE-rannsóknin er langtímarannsókn sem hlaut styrk frá evrópska rannsóknaráðinu, undir forystu Ingu Dóru Sigfúsdóttur, prófessors við Háskólann í Reykjavík, Columbia Háskóla í New York og Karolinska Háskóla í Stokkhólmi. Núverandi framhaldsrannsókn hefur hlotið styrk frá Rannís og er leidd af Þórhildi og Ingu Dóru.