Fréttir eftir árum


Fréttir

„Við viljum snjallt raforkukerfi sem lagar sig sjálft“

17.9.2019

„Snjallt raforkukerfi er hannað þannig að það getur lagað sig sjálft. Kerfið er stutt af háþróuðu varnarkerfi með gagnvirkri stýringu. Þetta gerir aðlögun kerfisins að öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum einnig auðveldari. Þessi nýju kerfi uppgötva sjálf bilanir mun fyrr, eða mögulegar bilanir, og geta endurstillt sig án þess að mannshöndin þurfi að koma þar nærri. Að því leyti er kerfið „snjallt“.

Mohamed Abdel-FattahAð sögn Mohameds Abdel-Fattah, aðjúnkts í raforkuverkfræði við verkfræðideild HR, er markmiðið að hafa hér á landi sjálfbært og áreiðanlegt flutningskerfi sem flytur raforku á góðu verði til viðskiptavina. Til að geta komið á fót slíku kerfi þarf að rannsaka snjallnet - vinsælt viðfangsefni rafmagnsverkfræðinga þessa dagana.

„Viðeigandi sjálfvirk viðbrögð fara af stað til að einangra bilun eða fjarlægja truflun um leið og hún á sér stað og rafmagnið er sett á að nýju til stærsta hóps viðskiptavinanna. Það sem við viljum gera er að fækka bilunum og stytta tímann sem rafmagnslaust er fyrir sem flesta viðskiptavini. Í framtíðinni væri gaman að sjá rannsóknaniðurstöður okkar nýtast innan lands sem utan.“

Tvöföld gráða með Aalto

Screenshot-2019-09-17-at-10.27.23

HR býður nú upp á tvíþætta gráðu (e. double degree) í rafmagnsverkfræði í samstarfi við hinn virta Aalto tækniháskóla í Finnlandi en Mohamed starfaði þar um árabil við raforkurannsóknir sem nýdoktor á sviði verndarbúnaðar með kvika hegðun.

Námið er tvö ár og nemendur þurfa klára tvær annir í hvorum skóla fyrir sig. „Það er þörf á fleiri sérfræðingum á þessu sviði og ég held að nemendur mínir hafi mikla atvinnumöguleika að námi loknu hér á Íslandi og úti í heimi.“

Íslenska kerfið undir álagi

Mohamed segir aðaldreifikerfi okkar vera gott en háan aldur þess, í erfiðum aðstæðum eins og íslensk veðrátta er, geta leitt til vandamála. „Hér er kalt og hér er vindasamt. Rafmagnið getur alltaf farið af og þá þarf kannski heil verksmiðja að loka starfsemi í einhvern tíma. Við erum ávallt að reyna að svara þessum spurningum: hvernig getum við gert flutning raforku stöðugan og öruggan? Hvernig getum við komið í veg fyrir óhöpp og gert kerfið ónæmt fyrir þessum þáttum? Og ef rafmagnið fer, hvernig minnkum við skaðann sem af hlýst? Þannig að fyrir móttakanda raforkunnar, eða viðskiptavininn, þá þurfi aldrei að loka.“