Fréttir eftir árum


Fréttir

Viðbótarveruleiki fyrir ferðamenn var vinningshugmyndin í ár

17.5.2018

Það var hugmyndin að „GoARGuide“ sem hlaut fyrstu verðlaun, eða Guðfinnuverðlaunin, í námskeiðinu Nýsköpun og stofnun fyrirtækja þetta árið. Hópurinn fær 500.000 kr. í verðlaun og tekur þátt í frumkvöðlakeppninni Venture Cup í Kaupmannahöfn (venturecup.dk) í haust. Í öðru sæti var ELJA electronics sem lagði fram nýja hönnun á fjöltengi og þriðja sætið hlaut hópurinn Klippit sem þróaði smáforrit sem heldur utan um  stimpil- og klippikort notandans. Umhverfisverðlaunin hlaut hópur sem setti fram hugmynd að fiskisoði.

Nýsköpun og stofnun fyrirtækja

Námskeiðið hefur verið þróað innan HR undanfarin ár af viðskiptadeild. Námskeiðið er skyldufag í grunnnámi við HR, er alls þrjár vikur að lengd og, eins og önnur þriggja vikna námskeið, er kennt í lok 12 vikna námslotu og að loknum prófum. Nýsköpun og stofnun fyrirtækja er þó alls ekki eins og flest önnur námskeið en réttara væri að kalla það vinnustofu þar sem nemendur þurfa að leggja afar hart að sér en fá jafnframt góða leiðsögn frá sérfræðingum háskólans og atvinnulífsins um það hvernig á að þróa hugmynd og stofna fyrirtæki. Nemendur vinna í hópum sem eru settir saman á handahófskenndan hátt, þannig að nemendur úr mismunandi fögum: viðskiptafræði, lögfræði, verkfræði, sálfræði, tölvunarfræði, íþróttafræði og tæknifræði þurfa að vinna saman. Nemendur sem ljúka námskeiðinu hafa öðlast færni í að þróa hugmynd, skrifa viðskiptaáætlun og kynna hana fyrir fjárfestum.

Hönnunarspretturinn

Í námskeiðinu í ár voru nemendur látnir ljúka svokölluðum hönnunarspretti, eða Design Sprint, sem er aðferðafræði sem þróuð er innan Google. Jake Knapp, sem þróaði aðferðina hjá Google, ávarpaði hópinn í annarri vikunni, enda hefur jafn stór hópur aldrei farið saman í gegn um þetta ferli.

Go ARGuide

Go ARGuide er snjallsímalausn fyrir ferðamenn sem felur í sér sýndar leiðsögumann í gegnum viðbótarveruleika (e. Augmented Reality). Með lausninni geta ferðamenn gengið um borgir og ferðamannastaði og fengið sérsniðna leiðsögn og upplýsingar á mjög snjallan hátt.

GoarguideHópurinn á bak við Go ARGuide ásamt Ara Kristni Jónssyni, rektor.

Í hópnum eru: Arnar Þórðarson,  tölvunarfræðinemi, Flosi Hrannar Ákason verkfræðinemi, Gabríela Jóna Ólafsdóttir, tölvunarfræðinemi, Sigurður Pétur Markússon, viðskiptafræðinemi, og Unnur Stefánsdóttir, laganemi.

ELJA Electronics

ELJA Electronics er fyrirtæki sem tvinnar saman persónuleg raftæki og góða hönnun. Fyrsta vara fyrirtækisins er nýstárlegt fjöltengi með útdraganlegum innstungum sem hentar sérstaklega vel fyrir nútíma heimili sem vilja samhæfa áhuga sinn á tækni og hönnun.

EljaELJA Electronics.

Í hópnum eru: Birkir Björns Halldórsson, laganemi, Eva Sif Einarsdóttir, tölvunarfræðinemi, Harpa Marín Jónsdóttir, verkfræðinemi, Jón Haukur Jónsson, viðskiptafræðinemi, og Vigdís Halla Björgvinsdóttir, viðskiptafræðinemi.

Klippit

Hugmyndin Klippit gengur út á að fyrirtæki geti boðið viðskiptavinum sínum upp á notendavænt smáforrit í símann sem heldur utan um öll stimpil- og klippikort. Með því ná þau fram aukinni notkun og útbreiðslu gegnum auglýsingar innan forritsins.

Klippit

Klippit-hópurinn.

Í hópnum eru: Eiríkur Örn Pétursson, viðskiptafræðinemi, Hlynur Hólm Hauksson, verkfræðinemi, Jóhanna María Gísladóttir, tölvunarfræðinemi, Katla Rún Arnórsdóttir, verkfræðinemi, og Matthías Davíðsson, tölvunarfræðinemi.

Hið íslenska sjávarsoð

Umhverfisverðlaunin í ár hlaut Hið íslenska sjávarsoð, fyrirtæki sem framleiðir hágæða fiskisoð á umhverfisvænan hátt. Við framleiðsluna eru notaðar aukaafurðir fisks sem veiddur er á sjálfbæran hátt og umframframleiðslu grænmetis. Hópurinn sér fram á að nýta megi vannýtt affallsvatn frá jarðvarmavirkjunum til suðu, þar sem öllu affallsvatni er dælt aftur í jörðina. Þar að auki er hægt að selja aukaafurðir sem myndast við framleiðsluna til dýrafóðursframleiðanda.

UmhverfisverdlaunHópurinn á bak við Hið íslenska sjávarsoð ásamt Snjólaugu Ólafsdóttur, umhverfisverkfræðingi.

Í hópnum eru: Búi Vilhjálmur Guðmundsson, Kristján Guðmundur Sigurðsson og Hjalti Jóhannsson en þeir eru nemendur í haftengdri nýsköpun.