Viðskiptadeild hlýtur viðurkenningu PRME
PRME, samráðsvettvangur háskóla sem var stofnaður af Sameinuðu þjóðunum, hefur veitt viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík viðurkenningu fyrir framúrskarandi framgangsskýrslu. Í skýrslunni sýnir deildin fram á árangur sinn í að ná þeim sex markmiðum sem sett eru fram af samtökunum PRME (Principles for Responsible Management Education) og tengjast sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Með því að skrifa undir viljayfirlýsingu PRME hefur viðskiptadeild HR skuldbundið sig til að leggja áherslu á kennslu í samfélagsábyrgð og ábyrgri stjórnun og hvetja til þess að atvinnulífið stundi ábyrga viðskiptahætti.
Ómetanlegt tengslanet
Páll Melsted Ríkharðsson, deildarforseti viðskiptadeildar HR, segir að það sé mikill heiður fyrir HR að hljóta þessa viðurkenningu í annað sinn: ,,Að leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð og kennslu í ábyrgri stjórnun er nokkuð sem öllum viðskiptaháskólum og deildum ber skylda til að gera. Skýrslan lýsir vel þeim gildum og viðmiðum sem HR viðhefur og leggur mikla áherslu á. Allir virtustu háskólar heims taka þátt í PRME samstarfinu og fyrir viðskiptadeild HR þýðir þetta aðgang að aukinni þekkingu og tengslaneti sem er okkur ómetanlegt” segir hann.
Á ráðstefnu PRME, sem haldin var í New York í júlí sl., fékk HR ásamt átta öðrum háskólum viðurkenningu fyrir sína skýrslu en viðskiptaháskólar og -deildir eiga að skila slíkum skýrslum annað hvert ár til að sýna fram á árangur í að ná þeim markmiðum sem samtökin setja. Að baki viðurkenningunni er ítarlegt valferli og rýndi ráðgjafanefnd samtakanna allar skýrslur sem lagðar voru fram. Viðskiptadeild HR lagði fram sína skýrslu í desember á síðasta ári og tekur hún til áranna 2014-2016. Deildin hefur nú fengið viðurkenningu fyrir báðar skýrslur sem hún hefur skilað til PRME en fyrri skýrslan hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi fyrstu skýrslu árið 2015.
HR einn af 600
Þátttaka í PRME samráðsvettvanginum er m.a. mikilvæg fyrir EPAS-gæðavottun viðskiptafræðináms við HR frá the European Foundation for Management Development (EFMD). PRME er fyrsti samráðsvettvangur SÞ um ábyrga stjórnunarmenntun í viðskiptaháskólum og var settur á fót í Genf árið 2007. Viðskiptadeild HR skrifaði undir viljayfirýsingu PRME 2012. Aðilar að samtökunum eru alls 600 háskólar frá 80 löndum.
Páll Melsted Ríkharðsson, deildarforseti, brautskráir nemanda frá námi við viðskiptadeild.