Fréttir eftir árum


Fréttir

Vilja auka aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu

19.5.2016

Þau Sævar Már Gústavsson, Birta Brynjarsdóttir, Óttar Guðbjörn Birgisson og Thelma Sif Sævarsdóttir eru öll meistaranemar í klínískri sálfræði við HR ásamt því að vera stofnendur sprotafyrirtækisins Góð líðan ehf. Fyrirtækið mun bjóða upp á sálfræðiþjónustu í gegnum vefsíðuna gagnleghugsun.is. Þannig vilja þau auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Í topp tíu í Gullegginu

„Við erum öll að klára meistaranámið núna í vor þannig að við erum á fullu við að þróa þessa hugmynd áfram og vinna í lokaverkefnunum okkar,“ segir Sævar Már. „Við byrjuðum að vinna í þessu á fullu í janúar en hugmyndin kom síðasta haust. Þá vorum við með óljósar hugmyndir um app, en komumst svo að því að til að veita gagnreynda meðferð hentaði vefsíða betur.“ Hópurinn kynnti hugmyndina fyrir forstöðumanni meistaranáms í sálfræði og fékk stuðning frá honum og góð ráð til að halda hugmyndavinnunni áfram. „Við erum enn í miklu samstarfi við sérfræðinga deildarinnar um vefinn og tókum jafnframt þátt í frumkvöðlakeppninni Gullegginu síðast, og vorum í hópi tíu efstu sprotafyrirtækjanna þar.“ Gulleggið segir Sævar hafa verið góða reynslu sem muni nýtast hópnum vel. “Við lærðum mikið, til dæmis að gera viðskiptaáætlun fyrir verkefnið og kynna það. En við lærðum líka að afmarka verkefnið okkar ekki eingöngu við Excel-skjalið, sem var ekki síður mikilvægt.”

Sævar Már Gústavsson, Óttar Guðbjörn Birgisson og Thelma Sif Sævarsdóttir við afhendingu styrks til verkefnisins. Á myndina vantar Birtu Brynjarsdóttur.   

Meðferðarform sem virkar

Til þessa hafa þau Sævar, Birta, Óttar og Thelma Sif hlotið einn styrk til að byggja fyrirtækið upp, frá sjóði um atvinnumál kvenna á vegum velferðarráðuneytis. „En við höfum aftur á móti fengið nokkrum sinnum neitun um styrkúthlutun.“ Hann segir peningaleysi þó ekki fara að stoppa vinnuna við verkefnið. „Við höfum fulla trú á þessu verkefni og við vitum hversu gott það er.“ Á vefnum munu notendur skrá sig í átta vikna meðferð. Þar fær notandi aðgang að texta, myndböndum og ýmsum verkefnum. Sálfræðingur fylgist svo með árangri hans og gefur honum endurgjöf á þau verkefni sem eru gerð. „Þetta er algengt meðferðarform í til dæmis Svíþjóð,“ segir Sævar. „Þetta hefur verið kallað „guided self-help“ á ensku og nýtist vel þeim sem þurfa aðstoð en þurfa ekki mikla umönnun geðheilbirgðisfólks. Við höfum trú á að þetta muni nýtast mjög mörgum, það er allavega enginn annar hér á Íslandi að veita hugræna atferlismeðferð með þessum hætti. Þar að auki hafa rannsóknir sýnt að svona meðferð virkar jafnvel, og stundum betur, en hefðbundin sálfræðimeðferð þannig að við vitum alveg hvernig landið liggur.“