Fréttir eftir árum


Fréttir

Vilja fjölga tækifærum til nýsköpunar í orkumálum og sjálfbærni

4.6.2019

Háskólinn í Reykjavík hefur umsjón með stjórn nýs samstarfsverkefnis á sviði nýsköpunar, orku, sjálfbærni og loftslagsmála en HR, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Orkuklasinn og GRP ehf. skrifuðu á dögunum undir samstarfssamning um ofangreint. Samstarfsverkefnið er vistað hjá Orkuklasanum.

Samningurinn er til fjögurra ára og kveður á um m.a. undirbúning úttekta á sjálfbærni Íslands auk úttektar á orkukerfi hér á landi, landbúnaðarkerfi og sjávarúrvegskerfi. Þá stendur einnig til að greina tækifæri til nýsköpunar í grænni tækni á Íslandi, t.d. í orkugeiranum og í sjávarútvegi.

Þróun námskeiða með Cornell-háskóla

Stjórnvöld, ásamt Orkuklasanum og GRP ehf., hafa undanfarin ár unnið með Cornell-háskóla í Bandaríkjunum að því að yfirfæra nýja þekkingu í orkumálum á milli þessara aðila sem jafnframt hafa unnið saman að rannsóknum og menntamálum. Í nýja samningnum er stefnt á aukið samstarf við Cornell í menntamálum og rannsóknum og til dæmis með þróun námskeiða um græna orku og sjálfbærni tengt sérstöðu Íslands.

„Í samstarfinu felast fjölmörg tækifæri á sviði nýsköpunar, orku, sjálfbærni og loftslagsmála og má þar nefna greiningu á tækifærum nýsköpunar í grænni tækni á Íslandi og úttekt á sjálfbærni Íslands í ákveðnum geirum,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Sjálfbær orka og nýsköpun í HR

Háskólinn í Reykjavík leggur áherslu á rannsóknir og menntun á sviði sjálfbærrar orku og nýsköpun. Helst má nefna nám á meistarastigi um sjálfbæra orku og flutning raforku innan Iceland School of Energy og stjórnun nýsköpunar við viðskiptadeild.

Screenshot-2019-06-04-at-16.05.02Frá undirskrift samningsins.