Fréttir eftir árum


Fréttir

Vilja vekja áhuga á innri endurskoðun sem fagi

14.1.2016

Háskólinn í Reykjavík og Orkuveita Reykjavíkur (OR) hafa skrifað undir samstarfssamning um starfsnám grunnnema og meistaranema á sviði innri endurskoðunar. Markmið samstarfsins er að efla innri endurskoðun sem faggrein með því að bjóða áhugasömum nemendum upp á ný tækifæri á því sviði. 

Innri endurskoðun Orkuveitu Reykjavíkur er sérstök eining innan fyrirtækisins. Starfsemi þeirrar deildar hefur frá árinu 2012 notið óháðrar vottunar um að vera rekin í samræmi við alþjóðlega staðla um innri endurskoðun. Starfsemi fyrirtækja innan samstæðu OR er fjölbreytt en rekin eru þrjú dótturfélög sem veita þjónustu sem ýmist er lögboðin, stunduð með sérleyfi eða á samkeppnismarkaði. Starfsnám hjá OR gefur háskólanemum því kost á að kynnast innri endurskoðun sem faggrein við afar fjölbreyttar og krefjandi aðstæður.  

Háskólinn í Reykjavík hefur boðið nemendum í viðskiptadeild upp á starfsnám frá árinu 2009. Yfir 50 fyrirtæki hafa tekið á þriðja hundrað nemendur í viðskiptafræði í starfsnám og hafa margir þeirra fengið fastráðningu að starfsnámi loknu. 

HR_OR Fulltrúar Háskólans í Reykjavík og Orkuveitu Reykjavíkur handsala samstarfssamninginn.