Fréttir eftir árum


Fréttir

Vísinda- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sótti HR heim

Stjórnendur HR ræddu málefni menntunar, vísinda og nýsköpunar við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur

10.12.2021

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kom í opinbera heimsókn í HR í vikunni. Ragnhildur Helgadóttir rektor, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, sviðsforseti samfélagssviðs og Gísli Hjálmtýsson, sviðsforseti tæknisviðs, tóku á móti Áslaugu Örnu. Þau gengu um skólann með viðkomu á vel völdum stöðum og ræddu meðal annars breiddina í HR, mikilvægi iðnnáms og sívaxandi áherslu á nýsköpun í háskólanámi.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að prófa hreyfiveikirannsóknarvélina.

Meðal þess sem var kynnt fyrir ráðherra var hreyfiveikirannsókn sem Paolo Gargiulo, dósent við verkfræðideild og forstöðumaður Taugalífeðlisfræðistofnunar Háskólans í Reykjavík, er í forsvari fyrir. Við rannsóknina er notaður hátæknibúnaður sem líkir eftir aðstæðum á sjó, við akstur og flug, með sýndarveruleika. Ráðherra prófaði að sjálfsögðu búnaðinn en engum sögum fer af því hvort það örlaði á hreyfiveiki eður ei.

Hannes Páll Þórðarson og Heru Grímsdóttur, deildarforseta iðn- og tæknifræðideildar, ræða við ráðherrann.

Föruneytið fór því næst á rafeindaverkstæðið þar sem Hannes Páll Þórðarson ræður ríkjum og hittu þau þar einnig fyrir Heru Grímsdóttur, deildarforseta iðn- og tæknifræðideildar.

Að sjálfsögðu fengu stúdentarnir sjálfu með ráðherra

Stúdentar voru næst sóttir heim, Alexander Ágúst Mar Sigurðsson, formaður Stúdendafélags HR og Selma Rún Friðjónsdóttir, varaformaður, tóku á móti hópnum á skrifstofu SFHR og fyrir hönd nemenda komu þau sínum sjónarmiðum á framfæri. Mikið spjallað og skeggrætt og að sjálfsögðu fengu stúdentarnir sjálfu með ráðherra.

Rektor bauð til fundar þar sem málefna menntunar, vísinda og nýsköpunar voru rædd.

Að lokum bauð rektor til fundar þar sem málefna menntunar, vísinda og nýsköpunar voru rædd yfir kaffibolla.