Fréttir eftir árum


Fréttir

Vísindamenn við HR hljóta styrki frá Rannís

30.3.2016

Vísindamenn Háskólans í Reykjavík hlutu nýverið verkefnisstyrki úr Rannsóknasjóði Rannís fyrir styrkárið 2016. 190 umsóknir um verkefnisstyrki bárust sjóðnum að þessu sinni og hlaut tæplega fjórðungur styrk eða 44 verkefni. 

Föll, atferlisgreining og nanóloftnet

Við tækni- og verkfræðideild hlutu þeir Andrei Manolescu, Sigurður Freyr Hafstein og Slawomir Marcin Koziel styrki. Andrei fyrir þróun á nanóloftnetum, Sigurður fyrir rannsóknir á Lyapunov-föllum og Slawomir fyrir hönnun á samþjöppuðum örbylgjukerfum.

Við viðskiptadeild hlaut Valdimar Sigurðsson styrk fyrir rannsóknir á atferlisgreiningu á neytendahegðun á netinu.

Við tölvunarfræðideild hlutu þau Luca Aceto og Marjan Sirjani styrki fyrir rannsóknir sínar. Luca fyrir TheoFoMon: Fræðilega undirstöðu fyrir vöktun og sannprófun á keyrslutíma og Marjan fyrir rannsóknarverkefnið SEADA-Pilot.

Öflug rannsóknarstefna

Markmið Háskólans í Reykjavík er að stundaðar séu öflugar rannsóknir innan veggja háskólans sem veita nýrri þekkingu inn í atvinnulíf og samfélag. HR er með viðurkenningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem vinnustaður sem fylgir viðmiðum ESB um gott starfsumhverfi fyrir rannsóknafólk.

Sjá rannsóknarstefnu Háskólans í Reykjavík