Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Fjallaði um rannsóknir sínar í opinberri heimsókn forseta Íslands til Svíþjóðar

17.1.2018

Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við sálfræðisvið HR, var annar tveggja íslenskra fræðimanna sem tók þátt í viðburði á vegum Nóbelþingsins (Nobel Assembly) í dag í Stokkhólmi. Viðburðurinn var liður í opinberri heimsókn forsetahjónanna Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reid til Svíþjóðar. Sænsku konungshjónin voru jafnframt viðstödd.

Viðburðurinn var haldinn í Karolinska Intistutet undir yfirskriftinni Encouraging collaboration between Iceland and Sweden in research and education og þar fjölluðu íslenskir og sænskir vísindamenn um rannsóknir sínar. Auk Ingu Dóru var Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild HÍ, meðal þátttakenda. Þær Inga Dóra og Unnur Anna hafa báðar hlotið hinn virta ERC rannsóknastyrk Evrópusambandsins.

Inga Dóra fór yfir árangur Íslendinga í forvörnum en okkur hefur tekist að draga mikið úr drykkju og vímuefnaneyslu unglinga. Reyndar hefur árangurinn verið svo góður að eftir því hefur verið tekið um allan heim og er „íslenska módelið“ nú fyrirmynd margra annarra ríkja og borga. Þessi árangur okkar byggist á samhentu átaki yfirvalda, fagfólks og vísindamanna og liggja rannsóknir Ingu Dóru og samstarfsfólks hennar til grundvallar þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið í forvörnum gegn vímuefnaneyslu á vegum hins opinbera. Nú síðast var Inga Dóra í viðtali hjá breska ríkisútvarpinu BBC og hún hefur haldið erindi um efnið út um allan heim, meðal annars hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Erindi Ingu Dóru bar heitið The science behind healthy youth.

Lesa viðtal í Tímariti HR við Ingu Dóru

Karolinska rannsóknarstofnunin er meðal fremstu læknaháskóla í heimi. Nóbelþingið hjá Karolinska velur handhafa Nóbelsverðlaunahafa á sviði læknisfræði og lífeðlisfræði.