Fréttir eftir árum


Fréttir

„Wild Icelandic Cod“ vinnur Hnakkaþonið 2017

22.1.2017

Vísir í Grindavík mun nota nýjar, umhverfisvænar neytendapakkningar fyrir íslenskan fisk á Bandaríkjamarkaði, nái vinnigstillögur í Hnakkaþoni HR og SFS, útflutningskeppni sjávarútvegsins, fram að ganga. Úrslit keppninnar voru tilkynnt í gær. Sigurliðið skipa nemendur í fjármálaverkfræði og viðskiptafræði; þeir Bjarki Þór Friðelifsson, Fannar Örn Arnarsson, Jóhannes Hilmarsson, Ómar Sindri Jóhansson og Sigurður Guðmundsson. Hópurinn mun heimsækja Seafood Expo North America, stærstu sjávarútvegssýningu í N-Ameríku í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna í Íslandi.

Sigurliðið í Hnakkaþoni 2017 situr í tröppunum í Sólinni með blómvendi í höndumÚrlausn þeirra bar titilinn „Wild Icelandic Cod“ og fólst í hönnun nýrra neytendapakkninga til að auðvelda Vísi að selja ferskan fisk beint á Bandaríkjamarkað. Umbúðirnar leggja áherslu á ferskleika, gæði, umhverfisvernd og sögu Vísis en innihalda líka einfaldar uppskriftir, sem henta meðvituðum neytendum í nútímasamfélagi. Einnig benti liðið á kosti þess að nota umhverfisvæna pappakassa í stað hinna hefðbundnu frauðplastkassa í flutningum á ferskum fiski. Pappakassarnir eru ódýrari, fyrirferðarminni og taka mun minna pláss í flutningum.

Wild_Icelandic_Cod2Unnu með Marel, Odda og Vísi í Grindavík

Í Hnakkaþoninu reyna nemendur HR með sér í lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Í áskorun Hnakkaþonsins að þessu sinni unnu nemendur með Vísi í Grindavík, Marel og prentsmiðjunni Odda að því að móta tillögur um hvernig Vísir geti aukið fullvinnslu og pökkun á ferskfiski á Íslandi, með aukinni áherslu á neytendapakkningar og áttu að vega kostnað og ávinning slíkra breytinga. Fimm lið skiluðu inn fjölbreyttum tillögum. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sagði við verðlaunaafhendinguna að liðin hafi skilað góðum tillögum sem hafi vakið athygli samstarfsfyrirtækjanna. „Viðfangsefni keppninnar í þetta sinn var að setja fram ítarlegar tillögur um hvernig þróa mætti vinnslu og pökkuná fiski hjá Vísi þannig að enn betur væri mætt þörfum neytenda fyrir vandaðar og hentugar pakkningar, á sama tíma og fullt tillit væri tekið til bæði kostnaðar, sjálfbærni og umhverfisáhrifa. Það er afskaplega krefjandi að setja fram nýjar og gagnlegar hugmyndir, þar sem tekið er tillit til allra mögulegra áhrifa þeirra. Liðin leystu þetta öll mjög vel og því var það alls ekki auðvelt fyrir dómnefnd að velja sigurvegara. En dómnefndin leysti sitt hlutverk vel og fagmannlega, og skilaði á endanum samhljóða niðurstöðu.“

Störf í sjávarútvegi spennandi

Erla Ósk Pétursdóttir, gæða- og þróunarstjóri Vísis íGrindavík sagði það hafa verið virkilega fróðlegt að heyra mismunandi hugmyndir um hvernig umhverfisvænar framtíðarumbúðir geti litið út. „Það var magnað hvað krakkarnir náðu að gera margt á stuttum tíma og liðin unnu frábæra vinnu í að benda á ný tækifæri fyrir Vísi. Þau náðu að kynnast starfsemi fyrirtækisins vel á stuttum tima og bentu á frábær tækifæri til sóknar í umhverfis- og markaðsmálum.“ Þá segir Erla áherslu HR á að vera ísterkum tengslum við atvinnulífið ekki síður mikilvæga fyrir fyrirtæki ísjávarútvegi. „Við viljum fá gott, menntað fólk til starfa og viljum að hæfir einstaklingar sjái störf í sjávarútvegi sem spennandi framtíðarstörf.“

Í dómnefnd Hnakkaþons 2017 sátu: Ari Kristinn Jónsson, rektor HR; Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands; Bjarni Guðjónsson, sölustjóri sjávarútvegs hjá Odda; Erla Ósk Pétursdóttir, gæða- og þróunarstjóri Vísis; Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips; Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo; Hallur Þór Sigurðarson, aðjúnkt við viðskiptadeild HR; Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður B.Sc. náms við viðskipta- og hagfræðideild HR; Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri SFS og Pálmi Jónsson, framkvæmdastjóri Blámar.

Markmið með Hnakkaþoninu er að kynna þau ótalmörgu tækifæri til nýsköpunar og fjölbreyttu störf sem íslensku sjávarútvegur býður upp á og kalla fram nýjar og frískar hugmyndir frá nemendum HR. Þá er eitt af meginmarkmiðum Hnakkaþonsins að minna nemendur á að arðbærni og góð umgengni um náttúruna verða að fara saman ef atvinnustarfsemi á að vera sjálfbær. Hnakkaþonið er einnig liður í áherslu HR á raunhæf verkefni í námi, í samstarfi við íslenskt atvinnulíf.