Fréttir eftir árum


Fréttir

Yfir 300.000 íslenskum raddsýnum verið safnað á vefsíðunni samromur.is

Háskólinn í Reykjavík og Almannarómur standa að söfnuninni í gegnum vefsíðuna samromur.is

21.12.2020

Söfnun á raddsýnum af íslensku sem verða notuð til að kenna tækjum að tala og skilja íslensku, hefur gengið afar vel og hafa nú um 12.000 einstaklingar lesið rúmlega 309 þúsund setningar. Háskólinn í Reykjavík og Almannarómur standa að söfnuninni í gegnum vefsíðuna samromur.is. Söfnunin er liður í að setja á stofn opin gagnabanka fyrir þróun máltæknibúnaðar til að tryggja stöðu íslensku í stafrænum heimi. 

Boðað til Lestrarkeppni grunnskólanna
Mál- og raddtæknistofa HR og Almannarómur efna til Lestrarkeppni grunnskólanna 2021 sem hefst í janúar. Grunnskólum um land allt er boðið að taka þátt og er keppninni skipt í þrjá flokka eftir fjölda nemenda. Keppnin felst í því að nemendur þess skóla sem lesa inn flestar setningar sigra keppnina. Forseti Íslands og forsetafrú eru verndarar keppninnar, hleypa henni af stokkunum og veita verðlaun að henni lokinni.

Konur verið duglegri að senda inn raddsýni
Konur hafa verið mun duglegri við söfnun söfnun raddgagnanna en þær hafa lesið 63% setninga í safninu. Þá sýna gögnin að meirihluti raddsýna er frá fólki á aldrinum 40 til 79 ára, eða 80%. Aldurshópurinn 6 til 17 ára hefur lesið 10% raddsýna gagnasafnsins.

Ragnheiður Þórhallsdóttir, Verkefnastjóri hjá Mál- og raddtæknistofu Háskólans í Reykjavík:

Verið er að leggja lokahönd á vinnu við undirbúning þeirra gagna sem komin eru og hlökkum við til að gefa út fyrsta hluta gagnasafnsins á næstu misserum. Þegar er kominn vísir að stærsta safni íslensks talmáls sem safnað hefur verið fyrir íslensku en meira þarf til að tryggja fjölbreytni, einna helst framlag karlmanna og íslenskumælandi með annað móðurmál en íslensku.

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms:

Til að tryggja að tækin skilji alla þurfum við mikið magn raddsýna fólks á öllum aldri. Raddir barna hafa annað tíðnisvið en raddir fullorðinna. Raddgagnasafnið Samrómur þarf því að innihalda nægilega mikið magn raddsýna barna til að hægt sé að nýta gögnin til þjálfunar máltæknihugbúnaðar sem nemur og skilur barnsraddir. Að tryggja að íslenskan verði lifandi mál í heimi tölvu og tækja er eitt stærsta samstarfsverkefni íslensku þjóðarinnar.

  Hér má finna frekari upplýsingar um meistaranám í Máltækni