Fréttir eftir árum


Fréttir

Yfirmenn hjá IKEA hlýddu á hugmyndir nemenda

30.5.2018

 

„Komandi kynslóðir krefjast þess af fyrirtækjum að þau hugsi framleiðslu sína með sjálfbærni að leiðarljósi, ekki bara í vöruframboði heldur í öllu framleiðsluferlinu, dreifingarferlinu og söluferlinu,“ segir Sigga Heimis, sem er verkefnastjóri í hönnunar- og þróunardeild höfuðstöðva IKEA í Sviþjóð.

Nemendur Háskólans í Reykjavík áttu þess kost að ljúka þriggja vikna vinnustofu á vorönn á vegum tækni- og verkfræðideildar með Siggu, sem er einn fremsti vöruhönnuður landsins. Vinnustofan hét Sjálfbærni í heimi fjöldaframleiðslu. Nemendur úr öllum deildum gátu skráð sig, og eina skilyrðið til að taka þátt hafi verið brennandi áhugi á sjálfbærni og vöruþróun.

Fjölbreyttar lausnir

Verkefni vinnustofunnar var að skoða hvernig risafyrirtæki á alheimsvísu getur stuðlað að betra lífi með bættu neyslumynstri, betri vörum, þjónustu og meiri þekkingu, út frá stórfyrirtækinu IKEA. Hóparnir fimm kynntu hugmyndir sem þeir höfðu þróað yfir vikurnar þrjár fyrir panel, eða dómnefnd. Meðal þeirra lausna sem nemendur kynntu voru umhverfisvænar tunnur fyrir rusl og moltu, „take-away“mat frá veitingastöðum IKEA í niðurbrjótanlegum umbúðum og/eða margnota kössum frá 365 línu fyrirtækisins og umhverfismerki á vörur sem eru vistvænni en aðrar. Til að setja fram raunhæfar lausnir þurftu nemendur að tengja ólík þekkingarsvið saman, eins og hagfræði, viðskiptafræði, verkfræði, tölvunarfræði, tæknifræði, iðnfræði og sálfræði.

Ikeanamskeid-3

Nemendurnir sem tóku þátt, ásamt dómnefndinni sem situr við borðið. Sigga Heimis situr lengst til hægri.

Dómnefnd skipuð sérfræðingum 

Dómnefndina skipuðu sérfræðingar frá meðal annars sjálfbærnideild höfuðstöðva IKEA í Svíþjóð og umhverfisstjóri IKEA á Íslandi. Einnig sátu í panel sérfræðingur frá Umhverfisstofnun og framkvæmdastjóri aha.is, auk kennara. Dómnefndin sammældist svo um einkunnir hópanna að afloknum kynningum.

Sjálfbærni er krafa

Við heyrum hugtakið sjálfbærni oft í umræðunni í dag, en hvað þýðir það fyrir daglegt líf einstaklinga? „Sjálfbærni getur verið margs konar. Við getum til dæmis ræktað okkar eigin mat og við getum framleitt okkar eigið rafmagn. Við getum líka endurnýtt og myndað nýtt hráefni úr efni sem þegar hefur verið notað svo myndist hringrás. Markmiðið er að jarðarbúar lifi eins neyslulitlu lífi og gangi eins lítið á grunnhráefnisforða jarðarinnar og hægt er. Við getum haft mikil áhrif á hvernig saxast á hann og hvernig hægt er að endurfylla án þess að valda skaða.“

„Fyrirtæki ættu að styðja við og hvetja til sjálfbærni og vörur ættu styðja viðskiptavini í að stunda sjálfbæran lífsstíl á auðveldan hátt,“ segir hún og að því miður megi bæta margt í fjöldaframleiðslu vara í dag. Sigga hefur starfað með IKEA í tvo áratugi. Hún gegnir nú stöðu verkefnastjóra hjá IKEA þar sem hún sér um allt skipulag og samstarf við hönnunar- og nýsköpunarstofnanir fyrir fyrirtækið. Einnig hefur hún unnið fyrir fjölda annarra fyrirtækja víðsvegar um heiminn.

Þriggja vikna námskeiðin í HR

Í lok hverrar 12 vikna kennsluannar, sem lýkur með prófum, taka við þriggja vikna verklegir og/eða hagnýtir áfangar við Háskólann í Reykjavík. Námskeiðið í sjálfbærri vöruþróun er dæmi um þriggja vikna áfanga en þeir geta verið af ýmsu tagi. Markmið með þriggja vikna námskeiðunum er að nemendur fái tækifæri til að nota þá þekkingu sem þeir hafa öðlast í kennslu yfir önnina með því að leysa hagnýt verkefni.

Nemendur kynna verkefni í skólastofuEinn hópurinn kynnir sína lausn.