Hnakkaþon
Útflutningskeppni sjávarútvegsins
Keppnin verður haldin í Háskólanum í Reykjavík 23. - 24. janúar og er opin öllum nemendum HR.
Skráning fer fram á skraning@ru.is til og með 21. janúar.
Hnakkaþon er samkeppni fyrir upprennandi sérfræðinga í markaðsmálum, hugbúnaði, tækni og vörustjórnun til að sanna hæfni sína og hæfileika í að þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Áskorun Hnakkaþonsins varðar einn af megin atvinnuvegum þjóðarinnar og öll þau umsvif sem þarf til að koma hágæða vöru á alþjóðlega markaði.
Keppnin er samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Háskólans í Reykjavík og er opin öllum nemendum HR.
Vinningsliðið fær að sækja stærstu sjávarútvegssýningu Norður-Ameríku sem fram fer í Boston í mars næstkomandi. Ferðin er í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.
Hnakkaþonið er opið öllum nemendum HR sem áhuga hafa á viðskiptum, vörustjórnun, markaðssetningu og öðrum þáttum sjávarútvegs. Þátttaka er endurgjaldslaus.
Allt að 5 þátttakendur geta verið saman í liði. Eindregið er hvatt til þess að lið séu mynduð af nemendum frá fleiri en einni deild.
Áskorunin:
Hvernig má koma ferskum íslenskum þorskhnökkum á markað í hágæða matvöruverslunum og veitingastöðum á austurströnd Bandaríkjanna og skapa þar eftirspurn eftir vörunni? Hafa þarf í huga veiðar, flutninga innanlands og í flugfrakt eða sjóflutningi, flutningaleiðina til Bandaríkjanna og svo mismunandi þætti dreifikerfis erlendis alla leið á disk neytenda.
Í verkefninu þarf að leggja áherslu á að hámarka söluverðmæti, lágmarka flutningskostnað og tryggja rétta markaðssetningu ferskra sjávarafurða. Til þess þarf að viðhalda ferskleika alla aðfangakeðjuna: frá veiðum, vinnslu, flutningum, dreifingu og til verslana. Vert er að huga að sérstöðu íslenskrar vöru og með hvaða hætti má viðhalda henni og auka.
Kröfur:
- Í úrlausninni þarf að taka tillit til virðiskeðjunnar í heild, þ.e. frá veiðum allt til sölu til neytenda
- Í úrlausninni þurfa að felast nýmæli, þ.e. breyting frá núverandi starfsháttum
- Úrlausnin þarf að bæta a.m.k. einn þátt ferilsins, þ.e. flutningshraða /-getu, kælingu, söluverðmæti, markaðssetningu, annað
- Framsetning á úrlausn þarf að vera skýr og hnitmiðuð
Fyrirkomulag keppni:
Keppnin hefst á hádegi á föstudeginum með léttum hádegisverði í Málinu. Þar geta jafnframt einstaklingar sem skráðir eru til leiks en eru utan liða myndað lið.
Formleg setning verður kl. 12:30 í M101. Þar munu fulltrúar HB Granda, Icelandair, Iceland Seafood, Matís og Samherja vera með stuttar kynningar á núverandi verkferlum og áskorunum við útflutning þorskhnakka til austurstrandar Bandaríkjanna. Sérfræðingur í skapandi hugsun flytur hvetjandi hugvekju í lokin. Gestir eru velkomnir á setninguna.
Liðin hafa því næst frá 13:30 á föstudeginum til 14:30 á laugardeginum til að leysa þrautina. Milli kl. 15 og 17 á föstudeginum verða sérfræðingar samstarfsfyrirtækjanna aðgengilegir keppendum í sérstökum viðtalstímum.
Liðin hafa aðstöðu í M201 allan keppnistímann. Keppendum verður boðið upp á kvöldverð (pizzur) á föstudeginum og morgunmat og hádegismat á laugardeginum.
Liðin kynna úrlausnir sínar fyrir dómnefnd kl. 15:00 á laugardeginum í M101. Tilkynnt verður um vinningshafa keppninnar kl. 17:00 og lýkur viðburðinum með móttöku í Sólinni. Gestir eru velkomnir á kynningu úrlausna og verðlaunaafhendingu.
Dómnefnd skipa Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda, Guðmundur Jónasson, deildarstjóri ferskfiskdeildar Iceland Seafood, Guðrún Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar HR, Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður BSc-náms í viðskiptafræði HR og Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Gestir og gangandi eru velkomnir í HR laugardaginn 24. janúar frá kl. 15 en þá kynna liðin sem taka þátt úrlausnir sínar í stofu M101.
Samstarfs- og styrktaraðilar keppninnar eru:
- HB Grandi
- Icelandair Group
- Iceland Seafood International
- Matís
- Samherji
- Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi
- Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi
Lið og/eða einstaklingar geta skráð sig til leiks til og með 21. janúar með því að senda póst á skraning@ru.is.
Nánari upplýsingar veitir Birna Þórarinsdóttir, verkefnastjóri atvinnulífstengsla, birnath@ru.is.
Mynd: GRID-Arendal