Viðburðir eftir árum


Hnakkaþon

Útflutningskeppni sjávarútvegsins

  • 23.1.2015 - 24.1.2015

Keppnin verður haldin í Háskólanum í Reykjavík 23. - 24. janúar og er opin öllum nemendum HR.

Skráning fer fram á skraning@ru.is til og með 21. janúar.

Hnakkaþon er samkeppni fyrir upprennandi sérfræðinga í markaðsmálum, hugbúnaði, tækni og vörustjórnun til að sanna hæfni sína og hæfileika í að þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Áskorun Hnakkaþonsins varðar einn af megin atvinnuvegum þjóðarinnar og öll þau umsvif sem þarf til að koma hágæða vöru á alþjóðlega markaði.

Keppnin er samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Háskólans í Reykjavík og er opin öllum nemendum HR.

Vinningsliðið fær að sækja stærstu sjávarútvegssýningu Norður-Ameríku sem fram fer í Boston í mars næstkomandi. Ferðin er í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Hnakkaþonið er opið öllum nemendum HR sem áhuga hafa á viðskiptum, vörustjórnun, markaðssetningu og öðrum þáttum sjávarútvegs. Þátttaka er endurgjaldslaus.

Allt að 5 þátttakendur geta verið saman í liði. Eindregið er hvatt til þess að lið séu mynduð af nemendum frá fleiri en einni deild.

Áskorunin:

Hvernig má koma ferskum íslenskum þorskhnökkum á markað í hágæða matvöruverslunum og veitingastöðum á austurströnd Bandaríkjanna og skapa þar eftirspurn eftir vörunni? Hafa þarf í huga veiðar, flutninga innanlands og í flugfrakt eða sjóflutningi, flutningaleiðina til Bandaríkjanna og svo mismunandi þætti dreifikerfis erlendis alla leið á disk neytenda.

Í verkefninu þarf að leggja áherslu á að hámarka söluverðmæti, lágmarka flutningskostnað og tryggja rétta markaðssetningu ferskra sjávarafurða. Til þess þarf að viðhalda ferskleika alla aðfangakeðjuna: frá veiðum, vinnslu, flutningum, dreifingu og til verslana. Vert er að huga að sérstöðu íslenskrar vöru og með hvaða hætti má viðhalda henni og auka.

Kröfur:

  • Í úrlausninni þarf að taka tillit til virðiskeðjunnar í heild, þ.e. frá veiðum allt til sölu til neytenda
  • Í úrlausninni þurfa að felast nýmæli, þ.e. breyting frá núverandi starfsháttum
  • Úrlausnin þarf að bæta a.m.k. einn þátt ferilsins, þ.e. flutningshraða /-getu, kælingu, söluverðmæti, markaðssetningu, annað
  • Framsetning á úrlausn þarf að vera skýr og hnitmiðuð

Fyrirkomulag keppni:

Keppnin hefst á hádegi á föstudeginum með léttum hádegisverði í Málinu. Þar geta jafnframt einstaklingar sem skráðir eru til leiks en eru utan liða myndað lið.

Formleg setning verður kl. 12:30 í M101. Þar munu fulltrúar HB Granda, Icelandair, Iceland Seafood, Matís og Samherja vera með stuttar kynningar á núverandi verkferlum og áskorunum við útflutning þorskhnakka til austurstrandar Bandaríkjanna. Sérfræðingur í skapandi hugsun flytur hvetjandi hugvekju í lokin. Gestir eru velkomnir á setninguna.

Liðin hafa því næst frá 13:30 á föstudeginum til 14:30 á laugardeginum til að leysa þrautina. Milli kl. 15 og 17 á föstudeginum verða sérfræðingar samstarfsfyrirtækjanna aðgengilegir keppendum í sérstökum viðtalstímum.

Liðin hafa aðstöðu í M201 allan keppnistímann. Keppendum verður boðið upp á kvöldverð (pizzur) á föstudeginum og morgunmat og hádegismat á laugardeginum.

Liðin kynna úrlausnir sínar fyrir dómnefnd kl. 15:00 á laugardeginum í M101. Tilkynnt verður um vinningshafa keppninnar kl. 17:00 og lýkur viðburðinum með móttöku í Sólinni. Gestir eru velkomnir á kynningu úrlausna og verðlaunaafhendingu.

Dómnefnd skipa Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda, Guðmundur Jónasson, deildarstjóri ferskfiskdeildar Iceland Seafood, Guðrún Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar HR, Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður BSc-náms í viðskiptafræði HR og Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Gestir og gangandi eru velkomnir í HR laugardaginn 24. janúar frá kl. 15 en þá kynna liðin sem taka þátt úrlausnir sínar í stofu M101.


Samstarfs- og styrktaraðilar keppninnar eru:

  • HB Grandi
  • Icelandair Group
  • Iceland Seafood International
  • Matís
  • Samherji
  • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi
  • Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi

Lið og/eða einstaklingar geta skráð sig til leiks til og með 21. janúar með því að senda póst á skraning@ru.is.

Nánari upplýsingar veitir Birna Þórarinsdóttir, verkefnastjóri atvinnulífstengsla, birnath@ru.is.







SFS





Mynd: GRID-Arendal


Vinsamlegast athugið að á viðburðum Háskólans í Reykjavík (HR) eru teknar ljósmyndir og myndbönd sem notuð eru í markaðsstarfi HR. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á ru.is eða með því að senda tölvupóst á netfangið: personuvernd@ru.is
//
Please note that at events hosted at Reykjavik University (RU), photographs and videos are taken which might be used for RU marketing purposes. Read more about this on our ru.is or send an e-mail: personuvernd@ru.is