UT messan
HR tekur þátt í UTmessunni - einum stærsta viðburði ársins í tölvugeiranum
Sýning UT messunnar 2017 verður haldin í Hörpu laugardaginn 4. febrúar kl. 10-17 og það eru allir velkomnir!
UTmessan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum og hefur verið haldin árlega frá árinu 2011. Á sýninguna mæta öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti og hvetja þannig fólk til að kynna sér um hvað tölvuiðnaðurinn snýst. Starfsfólk og nemendur HR kynna jafnframt námið við háskólann.
Ertu hrædd/ur við oddhvassa hluti?
Verkefni nemenda og kennara við HR sem snýr að framköllun fælniviðbragðs með sýndarveruleika verður kynnt á UTmessunni. Gestir geta prófað vatnsfælniumhverfi, hræðslu við oddhvassa hluti og innilokunarkennd í öruggu umhverfi sýndarveruleikans. Upplifunin er eftirminnileg og gefst gestum UTmessunnar tækifæri til að prófa umhverfið og jafnvel uppgötva eitthvað um sjálfa sig sem þeir vissu ekki fyrir. Verkefnið var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands og fékk sérstaka viðurkenningu. Umhverfið er nú notað í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar á fælni.
Þrívíddarprentuð líffæri
Heilbrigðistæknisetur HR, sem er samstarf Landspítalans og Háskólans í
Reykjavík, hefur verið frumkvöðull í notkun þrívíddarlíkana við
undirbúning skurðaðgerða. Til dæmis er hægt að kortleggja taugabrautir í
heilanum í þeim tilgangi. Íris Dröfn Árnadóttir,
meistaranemi í heilbrigðisverkfræði við HR, var nýlega tilnefnd til
Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands fyrir verkefni á þessu sviði. Á
UTmessunni verður hægt að skoða útprentaðar taugabrautir og önnur
þrívíddarprentuð líffæri.
Formula Student
Gestir geta kynnt sér kappakstursbíl sem smíðaður var af nemendum Háskólans í Reykjavík og keppti í hinni frægu Formula Student-keppni síðastliðið sumar.
Loftknúnir bílar
Einnig geta börn ekið bílum sem knúðir eru af þrýstilofti.
Mældu golfsveifluna
Hægt verður að sjá hvort réttir vöðvar séu í notkun við golfsveifluna.
Prófaðu að forrita
/sys/tur, félag kvenna í tölvunarfræði við HR, sýnir hvernig smátölvan Arduino virkar en með henni er hægt að forrita einfaldan hugbúnað og gagnvirka hluti.
Búðu til tónlist
Gestir geta prófað að búa til tónlist á nýjum búnaði sem nemendur bjuggu til.
Upplifðu sýndarveruleika
Hægt verður að prófa fleiri spennandi sýndarveruleikaverkefni, eins og sýndarheim sem nýttur er til sérkennslu barna og sýndarveru sem spilar tölvuleiki.
Meiri upplýsingar um UTmessuna eru á www.utmessan.is................................................................................................................................................
RU will be in Norðurljos in Harpa concert hall at the annual UTmessa, an event dedicated to all things IT, Saturday February 4th at 10am-5pm.
Staff and students will introduce various projects and everyone is welcome to watch and even try out for themselves. We will have VR, a student-built race car, muscle activity measurements and much, much more.