Viðskiptastríð og áskoranir fyrir Alþjóðaviðskiptastofnunina
Fyrirlestur Dr. James H. Mathis í stofu V102 kl. 12:00 - 13:00 þriðjudaginn 21. ágúst.
Það hriktir í stoðum alþjóðalagakerfis um tolla og viðskipti vegna yfirstandandi viðskiptastríðs. Árið 1995 var Alþjóðaviðskiptastofnunin sett á laggirnar og aðilar hennar settu skýrar reglur um hvort og hvenær þeir mættu leggja á viðurlög á útflutning hvors annars. Almenna reglan er sú að hver hinna 164 aðila stofnunarinnar geti ekki gripið einhliða til slíkra ráðstafana nema með heimild nefndar stofnunarinnar um lausn deilumála. Á þessu ári hafa Bandaríkin einhliða sett aukna tolla á stál- og álvörur frá aðildarsvæðum og ríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, m.a. Evrópusambandinu. Þá hafa Bandaríkin hótað fleiri einhliða tollaálögum á aðra vöruflokka.
Fyrirlesturinn fjallar um hvernig Bandaríkin hafa réttlætt þessar aðgerðir innan heimilda Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og sömuleiðis hvernig önnur ríki og Evrópusambandið hafa réttlætt sínar gagnaðgerðir. Þá verður fjallað um getu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til að takast á við þessar áskoranir.
Dr. James H. Mathis er stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hann hefur nýlega látið af störfum sem dósent við Amsterdam Center for International Law við Háskólann í Amsterdam.
Fyrirlesturinn er opinn öllum og fer fram á ensku. Fundarstjóri verður Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild HR. Streymi verður á slóðinni https://livestream.com/ru/althjodavidskipti2018