Viðburðir eftir árum


Brúastjórnunarkerfi - Þróun einkunna við ástandsskoðun steinsteyptra brúa á íslenska vegakerfi

Meistaravörn í byggingarverkfræði/mannvirkjahönnun við tækni- og verkfræðideild

  • 2.6.2017, 9:00 - 11:00

Guðmundur Úlfar Gíslason ver meistararitgerð sína „Brúastjórnunarkerfi - Þróun einkunna við ástandsskoðun steinsteyptra brúa á íslenska vegakerfi“ 2. Júni, kl. 9:00 í stofu M208.  

Leiðbeinendur: Guðmundur Valur Guðmundsson og Haraldur Sigþórsson

Prófdómari: Björn Ólafsson

Ágrip:

Góðar samgöngur eru ein af grunnstoðum hvers samfélags. Vegakerfið tengir saman fólk, byggðir og atvinnusvæði og gegna brýr þar veigamiklu hlutverki. Þær gera fólki kleift að komast ferða sinna þar sem annars, vegna landfræðilegra aðstæðna, ómögulegt væri að komast um.

Eftirfarandi verkefni fjallar að stærstum hluta um tölfræðilega greiningu á gögnum sem unnin er upp úr brúaskoðunarkerfi Vegagerðarinnar. Skoðuð er þróun einkunna sem gefnar eru við ástandsskoðun steinsteyptra brúa ásamt því að gerð er fylgnigreining á gögnunum með það að leiðarljósi að sjá sambandið á milli einkunna annars vegar og aldurs hins vegar. Auk þess er skoðað hversu mikið einkunnir skiptast hlutfallslega á milli þeirra byggingarhluta sem skoðaðir eru. 

Ekki verður hjá því komist að fjalla almennt um brúastjórnunarkerfi og eru tekin dæmi um fjögur mismunandi kerfi sem notuð eru víðs vegar um heiminn. Farið verður stuttlega yfir það hvernig kerfin eru uppbyggð ásamt því hvernig einkunnagjöf er skilgreind fyrir þá þætti sem skoðaðir eru. Einnig verða kerfin borin saman auk þess sem reynt verður að meta kosti og galla hvers kerfis fyrir sig.

Þegar niðurstöður yfir allt landið eru skoðaðar kemur það í ljós að skýra megi út ríflega 36% af ástandseinkunn með aldri brúnna. Þó er það nokkuð misjafnt á milli landssvæða, eða frá 26% og upp í 43%. Setja verður samt fyrirvara við þessar niðurstöður þar sem inngrip í formi viðhalds, eða jafnvel endurbygging brúnna, koma ekki fram í þeim gagnagrunni sem var til skoðunar.

Niðurstaða verkefnisins gefur góða ástæðu til þess að fara út í frekari rannsóknir á viðfangsefninu. Eins og kom fram hér að ofan þá skýrir aldur aðeins rúm 36% af ástandseinkunnum. Það eru þá ef til vill aðrir þættir, eins og til dæmis staðsetning, umferð, burðargeta, efnisgæði byggingarhluta o.s.frv., sem skýra út það sem upp á vantar.Vinsamlegast athugið að á viðburðum Háskólans í Reykjavík (HR) eru teknar ljósmyndir og myndbönd sem notuð eru í markaðsstarfi HR. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á ru.is eða með því að senda tölvupóst á netfangið: personuvernd@ru.is
//
Please note that at events hosted at Reykjavik University (RU), photographs and videos are taken which might be used for RU marketing purposes. Read more about this on our ru.is or send an e-mail: personuvernd@ru.is