Ævintýri lífs míns: verkfræði og flug

Bjarni V. Tryggvason - fyrsti íslenski geimfarinn

  • 14.3.2018, 12:00 - 13:00

Hádegisfyrirlestur í HR, stofu V101.

Miðvikudaginn 14. mars kl. 12:00

Í fyrirlestri sínum mun Bjarni spjalla um ævintýri lífs síns: geimflug, flugvélaprófanir og rannsóknir og þróun á sviði verkfræði.

Bjarni V. Tryggvason, fyrsti íslenski geimfarinn, fæddist á Íslandi 1945 en fluttist árið 1953 til Kanada, þar sem hann hefur búið síðan. Hann hefur dvalið á Íslandi undanfarnar vikur og unnið með ISAVIA að þróun á flugvélaprófunum á Keflavíkurflugvelli.

Bjarni er með B.Ap.Sc-gráðu í verkfræði og eðlisfræði frá Háskólanum í British Columbia og heiðursdoktorsgráðu frá fjölmörgum háskólum. Árið 1997 flaug hann í 10 daga með bandarísku geimskutlunni og árin 1998-2000 lauk hann þjálfun hjá NASA og alþjóðlegu geimstöðinni. Hann hefur þróað hugbúnað sem notaður hefur verið í rússnesku MIR geimstöðinni, bandarísku geimskutlunni og alþjóðlegum geimstöðinni (ISS). Hann hefur gegnt stöðum og kennt loftaflsfræði, stærðfræði og hönnun kerfa fyrir geimferðir í fjölmörgum háskólum. Bjarni hefur mikla reynslu sem flugmaður, m.a. sem listflugmaður, og á yfir 6300 flugtíma að baki á yfir 50 flugvélategundum. Frá 2009-2017 kenndi hann við alþjóðlegan kanadískan flugskóla fyrir prófunarflugmenn (ITPS Canada).

Allir velkomnir. Fyrirlesturinn verður haldinn á ensku.

Fyrirlestur Bjarna er samstarf Háskólans í Reykjavik og ISAVIA. 

Fyrirlestrinum verður streymt á slóðinni https://livestream.com/ru/bjarnigeimfari


Maður stendur fyrir framan flugvél