Hver er kjarni markaðsmisnotkunar?

  • 11.10.2018, 15:45 - 17:30, Háskólinn í Reykjavík

Í tilefni af útgáfu bókar Dr. Andra Fannars Bergþórssonar, lektors við lagadeild Háskólans í Reykjavík "What is Market Manipulation? An Analysis of the Concept in a European and Nordic Context" stendur lagadeild HR fyrir málþingi fimmtudaginn 11. október kl. 15:45 í stofu M104 í HR. Að málþinginu loknu verður boðið upp á léttar veitingar.

Markaðsmisnotkun hefur verið töluvert í umræðunni síðastliðin 10 ár - allt frá hruni þriggja stærstu viðskiptabankanna á Íslandi - fyrir þann tíma var þessum brotaflokki veittur lítil athygli og fá mál ratað til dómstóla. Í dag liggja fyrir þó nokkur fordæmi hjá íslenskum dómstólum þar sem dæmt hefur verið fyrir stórfellda markaðsmisnotkun og enn eru slík mál til meðferðar hjá dómstólum.

Bók Andra byggir á doktorsritgerð sem hann vann við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla undir leiðsögn dr. Jesper Lau Hansen, prófessors við lagadeildina. Á málþinginu mun Andri fara yfir helstu niðurstöður bókarinnar um hugtakið markaðsmisnotkun eins og það er skilgreint í Evrópulöggjöfinni (sem íslenska bannið byggir á). Farið verður yfir helstu markaðsmisnotkunarmálin á Íslandi og þau borin saman að einhverju leyti við dóma sem hafa fallið á Norðurlöndunum. Í bókinni voru 65 markaðsmisnotkunarmál frá Norðurlöndunum rannsökuð.

Bókin er gefin út af Brill Publishing sem hluti af rannsóknarseríunni „International Banking and Securities Law“ og er hægt að kaupa bókina á www.amazon.co.uk eða gegnum vefsíðu Brill: http://booksandjournals.brillonline.com/content/journals/24056936.