Kynningarfundur um MPM meistaranámið við HR
Kynningarfundur um MPM meistaranám í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík
Kynningarfundur um MPM meistaranám í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík verður haldinn í hádeginu föstudaginn 25. mars kl. 12-13.
Fundurinn verður haldinn í HR í stofu M104 en verður einnig hægt að horfa á fundinn á netinu.
Fundarhlekkur: https://eu01web.zoom.us/j/66113440982
Skráning fer fram hér: https://bit.ly/3LrTVZf
Haukur Ingi Jónasson formaður stjórnar MPM-námsins og Helgi Þór Ingason forstöðumaður námsins segja frá náminu, fyrirkomulagi þess og innihaldi, möguleikum útskrifaðra nemenda, gæðakröfum og alþjóðlegum viðmiðum.
Útskrifaðir og núverandi nemendur segja frá reynslu sinni af náminu og hvaða tækifæri það hefur haft í för með sér.
------------
MPM-námið er meistaranám í verkefnastjórnun sem hentar þeim sem vilja koma hlutum í verk og stýra flóknum verkefnum, hvort sem það er á sviði vöruþróunar, verklegra framkvæmda, nýsköpunar, innleiðingar, breytinga, rannsókna eða menningarviðburða.
Námið er 90 ECTS einingar og er alþjóðlega vottað. Það er skipulagt sem nám samhliða vinnu og tekur tvö ár. Frá fyrsta degi læra nemendur aðferðir sem nýtast í starfi og á meðan á náminu stendur öðlast þeir traustan fræðilegan grunn og eiga þess jafnframt kost að taka virkan þátt í þróun og útbreiðslu faglegra stjórnunaraðferða.
Vaxandi fjöldi fyrirtækja og stofnana tekur meðvitaða ákvörðun um að halda utan um þorra viðfangsefna sinna með aðferðum verkefnastjórnunar. Ástæðurnar fyrir þessu eru margar, ekki síst hraði breytinga í krefjandi samkeppnisumhverfi og þörfin fyrir það að geta lagað sig að síbreytilegu umhverfi og mætt kröfum viðskiptavina. Aðferðir sem kenndar eru í MPM-námi mæta því aukinni alþjóðlegri eftirspurn á öllum sviðum athafnalífsins. Flest bendir til að þessi þróun í átt að verkefnamiðun fyrirtækja haldi áfram og nú er talað um verkefnamiðun samfélaga, þegar heilu samfélögin gerast verkefnamiðuð og auka þannig getu sína til að takast á við flókin viðfangsefni og takast á við breytingar.