Alþjóðleg ráðstefna um áhættustjórnun og greiningu

HR og Stiki í samvinnu við samstarfsnet MIT-háskólans

  • 13.9.2017 - 15.9.2017, 9:00 - 17:00

Háskólinn í Reykjavík og Stiki, í samvinnu við samstarfsnet MIT-háskólans um kerfisbundið mat á áhættu (PSAS) halda alþjóðlega ráðstefnu um áhættustjórnun og greiningu, dagana 13. - 15. september næstkomandi. Á ráðstefnunni er boðið upp á fyrirlestra og vinnustofur sem fjalla um stjórnun og greiningu áhættu sem er eitt mikilvægasta viðfangsefni nútíma stjórnunar og ein helsta forsenda góðra ákvarðana.

STAMP (Systems-Theoretic Accident Model and Processes) er ný aðferð til áhættugreiningar sem nú er notuð í geimrannsóknum, flugi, heilbrigðistækni, kjarnorkutækni, bílaframleiðslu og á fleiri sviðum. Aðferðin var sett fram í bók eftir dr. Nancy Leveson, Engineering a Safer World, árið 2012. Nancy, sem er prófessor við MIT-háskólann, er annar aðalfyrirlesara á ráðstefnunni. Með STAMP-aðferð eru orsakaþættir eins og hugbúnaður, ákvarðanataka mannsins og aðrir mannlegir þættir, ný tækni, þjóðfélagsskipan og öryggismenning teknir til greina við verkfræðilega greiningu.

Annar aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, sem mun fjalla um þá geigvænlegu sviðsmynd sem gæti blasað við Evrópu og heiminum í kjölfar íslenskra eldgosa.

Fjöldi annarra fyrirlesara fjallar um áhættu frá ýmsum sjónarhornum. Efni ráðstefnunnar á erindi til stjórnvalda, stjórnenda og fræðimanna sem hafa áhuga á að minnka áhættu við rekstur samfélaga, fyrirtækja og samfélaga.

Meðal þess sem rætt verður er:

Áhættumat við nýsköpun í heilbrigðisgeiranum

Tölvuöryggi í kjarnorkuverum

Flokkun á orsakavöldum meiriháttar sjóslysa

Dæmi um ómannaða flutningaflugvél í prufuferð (Safety case of unmanned cargo aircraft during an international test flight)

Greining á lestarslysum í Sviss

Ráðstefnan er haldin í Háskólanum í Reykjavík, í stofu V101.

Sjá nánar á vefsíðu ráðstefnunnar.  

Tengiliðir